Hanna Katrín Friðriksson hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Heilbrigðissviðs Icepharma frá 1. október nk.  Hanna Katrín hefur undanfarin tvö ár starfað hjá Icepharma sem forstöðumaður viðskiptaþróunar.  Auk þess situr Hanna Katrín í stjórn MP banka.

Fram kemur í tilkynningu um málið að Hanna Katrín er 48 ára gömul með MBA gráðu í stefnumótun og breytingastjórnun frá Graduate School of Management, University of California og með BA gráðu í heimspeki og hagfræði frá HÍ.

Hanna Katrín hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr íslensku atvinnulífi.  Hún var aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra á árunum 2007-2009 og kom þá að verkefnum innan ráðuneytisins sem varða almenna stefnumótun heilbrigðiskerfisins ásamt því að sitja í stjórn byggingarnefndar nýs háskólasjúkrahúss. Áður starfaði Hanna Katrín m.a. sem framkvæmdastjóri stjórnunar- og samskiptasviðs Eimskips og sem framkvæmdastjóri Háskólans í Reykjavík.

Hanna Katrín hefur verið stundakennari í HR og Háskólanum á Bifröst og kennt m.a. viðskiptasiðfræði, og stjórnun heilbrigðisþjónustu ásamt stjórnun og stefnumótun á sviði lýðheilsu.  Auk þess starfaði hún sem blaðamaður á viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins á árum áður.

Maki Hönnu Katrínar er Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Novators, og eiga þær tvíburadætur sem eru 11 ára.