Norðmenn munu brátt eignast heimsins fyrsta og stærsta neðansjávar-veitingahús. Áætlað er að veitingastaðurinn Under, sem verður að hluta til í Norðursjó meðfram ströndum Båly í Lindesnes í Suður-Noregi, muni opna árið 2019, en allt að 100 gestir munu geta horft upp á dýraríkið í sjónum á meðan snætt er á staðbundnum mat. Veitingahúsið verður 592 fermetrar að stærð og áætlað er að byggingaframkvæmdir hefjist næsta vetur.

Norska arkitekta- og hönnunarstofan Snøhetta hannaði útlit Under, en fyrirtækið hannaði einnig óperuhúsið í Osló. Snøhetta hefur nú birt myndir af veitingahúsinu á vefsíðu sinni. Veitingahúsið er hannað eins og sjónpípa eða skip sem er að sökkva í sjóinn.

Í Under verður einnig aðstaða til að stunda rannsóknir á sjávarlíffræði og fiskhegðun. Á norsku þýðir under bæði undir og undur.

Kostnaðaráætlun Under hljóðar upp á 50 milljónir norskra króna eða rúmlega 643 milljónir íslenskra króna.