Martak í Grindavík hefur nýlokið við stórt verkefni í Kanada sem fólst í uppsetningu á tankakerfi fyrir ílögn og uppþýðingu á rækju fyrir rækjuvinnslu í Quebeq. Þetta er þriðja kerfið af þessu tagi sem Martak kemur að uppsetningu á í Kanada. Auk þess að þjónusta rækjuvinnsluna á Íslandi og Kanada sinnir fyrirtækið einnig verkefnum fyrir rækjuvinnslur í Grænlandi og Noregi.

Martak byggðist upp sem þjónustufyrirtæki fyrir rækjuvinnsluna í landinu á níunda áratugnum í Grindavík. Það byrjaði smátt með fáum starfsmönnum og starfsemin vatt upp á sig. Um aldamótin gekk Vilhelm Þórarinsson hönnuður til liðs við Martak en hann hafði áður verið með sig eigið fyrirtæki á Skagaströnd sem framleiddi skelblásara fyrir rækjuvinnslu. Við komu Vilhelms hófst smíði á búnaði hjá Martak, sérstaklega fyrir rækjuvinnslu. Um svipað leyti er þjónustan færð út á aðra markaði og systurfélag stofnað í Kanada sem heitir Martak Kanada. Það þjónar rækjuvinnslunni á Nýfundnalandi þar sem kraftur komst að nýju í rækjuveiðar á miðjum tíunda áratug síðustu aldar. Auk þess að þjónusta rækjuvinnsluna á svæðinu býður Martak Kanada upp á margvíslega aðra þjónustu fyrir sjávarútveginn á austurströnd Kanada  en framleiðir ekki vörur sjálft. Það er með umboð fyrir Scanbelt færibandareimar, Style flokkara og DNG handfærarúllur svo fátt eitt sé nefnt. Þar starfa tíu manns.

Þróast í nýjar áttir

Um svipað leyti og rækjuveiðar fara að ganga betur hjá Kanadamönnum verður hrun í rækjuveiðum hérlendis. Rækjuvinnslum fækkaði fljótlega úr því að vera um það bil 20 á öllu landinu niður í 10. Nú eru einungis fimm rækjuvinnslur starfandi á Íslandi, þar af fjórar á heilsársgrunni og ein vertíðarbundið.

Kúnnahópur Martak er því ekki lengur eins stór á Íslandi hvað varðar búnað og þjónustu fyrir vélar og búnað fyrir rækjuvinnslur.

„Þess vegna hefur fyrirtækið þróast í þá átt að smíða annan búnað líka. Grunnurinn hefur verið búnaður fyrir rækjuvinnslur en síðan hefur starfsemin þróast út í það að hanna og smíða búnað fyrir bolfiskvinnslur, lifrarvinnslur og hrognavinnslur. Hvað bolfiskvinnsluna höfum við smíðað búnað sem tengist meðhöndlun á fiski, eins og innmötunarkör, karalyftur, aðgerðarlínur og ýmislegt annað. Við höfum líka verið með búnað fyrir íshúðun á flökum og bitum svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Gunnlaugur Sighvatsson, rekstrarstjóri Martaks.

Martak hefur lagt áherslu á samstarf við önnur fyrirtæki í þessum geira og meðal viðskiptavina Martaks hérlendis eru bæði Marel og Valka á þann hátt að Martak hefur átt búnað sem hefur hentað með þeirra lausnum.  Það hafa til dæmis verið innmötunarkör og aðgerðarlínur sem hefur vantað inn í stærri lausnir sem þessi fyrirtæki selja sínum viðskiptavinum.

Krafa um þrif og hreinlæti

„Okkar lausnir hafa mælst ágætlega fyrir. Grunnur okkar er hönnun fyrir rækjuvinnslu þar sem unnar eru fullunnar afurðir með miklum kröfum varðandi þrif og hreinlæti. Þessi grunnur okkar er vel sjáanlegur líka í vörum okkar fyrir bolfiskvinnsluna þar sem stöðugt hertar kröfur eru gerðar um þrif og hreinlæti. Innmötunarkör okkar fyrir bolfiskvinnslu eru til að mynda með lyftanlegu færibandi til þess að auðvelda þrif. Þetta má rekja til þess að hönnuðurinn er vanur kröfuhörðu umhverfi sem rækjuvinnslan er. Áhugi bolfiskiðnaðarins fyrir okkar lausnum hefur aukist og við finnum að það er vakning fyrir því að hönnun búnaðar taki mið af þrifum og hreinlæti,“ segir Gunnlaugur.

Erlend verkefni allt upp í 70%

Martak hannar og smíðar allan sinn búnað sjálft. Veltan er sveiflukennd og ræðst mikið til af stærri verkefnum erlendis. Hlutfallið af erlendum verkefnum í veltunni getur sveiflast frá því að vera um fjórðungur og allt upp í 60-70-%. Stóru verkefnin hvað varðar rækjuvinnsluna hafa meira verið erlendis en innlendis undanfarin ár. Vegna hlutfalls erlendra markaða  er fyrirtækið talsvert upp á náð gengis krónunnar komið en innkaup á aðföngum sveiflujafnar einnig reksturinn. Staða krónunnar skiptir engu að síður miklu máli fyrir reksturinn.

„Áhrifin af coveid-19 faraldrinum eiga eftir að koma í ljós á okkar starfsemi en vissulega hef ég vissar áhyggjur af þeim. Þróunin gæti orðið sú að fyrirtæki haldi að sér höndum hvað varðar fjárfestingar og endurnýjun búnaðar meðan þetta ástand varir og það má reyndar búast við því.“