Bridgewater Associates, stærsti vogunarsjóður heims, leggur mikið upp úr strangri fyrirtækjamenningu. Stofnandi félagsins, Ray Dalio, telur menninguna vera undirstöðu allra framfara, en hjá Bridgewater eru sannleikur og gagnsæi ofar öllu.

Bridgewater hefur stundum verið líkt við einhverskonar sértrúarsöfnuð, enda er bókin Principles eftir Ray Dalio leiðarvísir fyrir þá sem hyggjast vinna hjá félaginu. Í Þessari bók fjallar stofnandinn um fyrirtækjamenningu Bridgewater, sem gengur út á það að forðast allt egó, til þess að komast að sönnum niðurstöðum, sem eru engan vegin gildishlaðnar.

Fyrirtækið réðst einnig nýlega í hönnun á einhverskonar forriti, þar sem starfsmenn geta gefið hvor öðrum einkunn og þar sem þeir eru regluleg metnir út frá persónuleikaprófum. Forritið hefur sætt mikillar gagnrýni og blaðamenn hafa líkt Ray Dalio við Frankenstein.

Hann telur að reynt sé að skaða ímynd félagsins með umfjöllun síðustu vikna og segir tölfræðina sýna að 94% starfsmanna Bridgewater segist njóta góðs af menningunni sem skapast hefur. Dalio hefur tjáð sig um málið á LinkedIn síðu sinni, en hann telur að forritið muni nýtast einstaklega vel til þess að virkja menninguna enn betur innan félagsins.