Skortur á hjálparforritum við hljóðfærakennslu varð kveikjan að meistaraverkefni Hilmars Þórs Birgissonar. Hilmar lauk meistaraprófi í rafmagns- og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Hann hannaði ásamt leiðbeinendum sínum smáforrit sem greinir tóna og er sagt frá því á vefsvæði HÍ í dag.

„Forritið ber kennsl á þá tóna sem það skynjar og birtir niðurstöður í formi nótna á nótnalínum. Svo er hægt að fá meiri upplýsingar um hverja nótu og hvernig má spila hana á viðkomandi hljóðfæri,“ segir Hilmar. Smáforritið er meðal annað hugsað fyrir byrjendur í tónlist og getur hjálpað þeim að læra og greina tónbil og lesa nótnaskrift.

Hugmyndin að smáforritinu hafnaði í öðru sæti í hagnýtingarverðlaunum Háskóla Íslands á síðasta ári.