*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 11. desember 2019 19:25

Hannar kökur í Köben

Fyrir tveimur árum hóf Ynja Mist Aradóttir, þá aðeins 21 árs gömul, rekstur á eigin kökuhönnunarverslun í Kaupmannahöfn.

Sveinn Ólafur Melsted
Upphaflega ætlaði Ynja Mist að setjast á skólabekk í Kaupmannahöfn en úr varð að hún hóf eigin atvinnurekstur í borginni.
Aðsend mynd

Í dag eru nákvæmlega tvö ár síðan Ynja Mist Aradóttir stofnaði fyrirtækið Bake My Day í kringum kökuhönnunarrekstur sinn í Kaupmannahöfn. Í byrjun mars árið 2018 opnaði hún svo kökuhönnunarverslun í Amager-hverfinu. Ynja segist ekki hafa stefnt að því að hefja eigin atvinnurekstur þegar hún flutti frá
Íslandi til Kaupmannahafnar.

„Ég flutti til Kaupmannahafnar því ég hafði áhuga á að hefja háskólanám í vöruhönnun. Heima á Íslandi hafði ég verið á kafi í myndlist og auk þess hef ég alltaf haft mikinn áhuga á efnum; hvernig þau eru búin til, á hvaða hátt þau eru notuð o.s.frv. Þetta nám kemur einmitt mikið inn á þessi áhugasvið mín og því þótti mér tilvalið að sækja um það.“

Ofangreint nám var kennt á dönsku og þar sem Ynja var á þessum tíma ekki búin að ná valdi á tungumálinu, fékk hún ekki inngöngu í námið. „Eftir að hafa ekki komist inn í námið stefndi ég á að gera aðra tilraun til að komast inn. Næstu vikur og mánuði á eftir var ég mikið að mála og vinna í annarri listsköpun. Ég var þó á höttunum eftir hlutastarfi sem gæti veitt mér nægar tekjur til að dekka leigukostnað.

Ég fór því að leita mér að hlutastarfi sem kökuhönnuður, en áður en ég flutti út hafði ég starfað sem slíkur hjá Sætum Syndum. Því fór ég að svipast um og endaði á að komast í samband við Agötu Kozlowska, sem var með eigin rekstur undir nafninu Bake My Day. Hún vildi hins vegar fá mig í fullt starf og þá féll það upp fyrir. Nokkrum mánuðum síðar sendi Agata mér svo skilaboð og bað mig um að aðstoða sig við nokkur bakstursnámskeið, sem og ég gerði.“

Eftir eitt námskeiðið sagði Agata Ynju frá því að hún hygðist brátt flytja til Írlands ásamt manninum sínum og því stefndi allt í að rekstur Bake My Day myndi leggjast af. „Hún var opin fyrir því að selja reksturinn og ég varð mjög spennt fyrir þeirri hugmynd að taka hann yfir. Ég fór því á fullt við að skoða markaðinn og möguleg leiguhúsnæði undir reksturinn en ég, ungi og fátæki listamaðurinn, hafði auðvitað ekki fjárhagslegt bolmagn til að gera þetta að veruleika.“

Ynja dó þó ekki ráðalaus og hringdi í móður sína og sagði henni frá þessari hugmynd. Tveimur dögum síðar hringdi móðir hennar svo í hana og sagðist vilja leggja til fjármagn. Því gat Ynja farið í að koma rekstrinum af stað og leita að húsnæði undir reksturinn.

Þegar kom að því að setja upp verslun Bake My Day fékk Ynja svo hjálp frá föður sínum og bróðir hennar hjálpaði einnig til við baksturinn á upphafsdögum fyrirtækisins. „Stuðningur fjölskyldu minnar hefur reynst ómetanlegur og án þeirra hefði þetta ævintýri aldrei orðið að veruleika.“

Veltan rúmlega tvöfaldast

Á þessum tveimur árum hefur Bake My Day vaxið nokkuð hratt og í dag eru starfsmenn fyrirtækisins fimm talsins en voru sex þegar mest lét síðastliðið sumar. Ynja segir að reksturinn hafi heilt yfir gengið ágætlega.

„Á þessu ári hefur veltan okkar rúmlega tvöfaldast miðað við það sem hún var á sama tímabili í fyrra, og það var brjálað að gera hjá okkur allt síðasta sumar. Markhópurinn sem við einblínum helst á er fólk sem er til í að eyða aðeins meiri peningi í sérhannaða og vandaða köku. En á sama tíma bjóðum við upp á einfaldari og ódýrari kökur sem hægt er að panta með sólarhrings fyrirvara. Þannig erum við að höfða til breiðs hóps viðskiptavina.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Umfjöllun um áhrif söluferlisins á rekstur Medis
 • Stjórnendur Íslandspóst litu á félagið sem flutningafyrirtæki en ekki póstveitenda
 • Framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga vill að græn skuldabréf beri betri kjör
 • Alþjóðlegar skuldbindingar kalla á bætta hagtölugerð. Áratugum á eftir öðrum löndum
 • Ný heildarlöggjöf um innheimtu skatta og gjalda fellur út ákveðin réttindi skattgreiðenda
 • Forseti eins af 12 svæðisbundnum seðlabönkum Bandaríkjanna ræðir hvað hægt sé að læra af Íslandi
 • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra er í ítarlegu viðtali
 • Fjórir frammámenn í íslensku samfélagi segja frá því hvaða bækur standi uppúr leslista skammdegisins
 • Saga fjárfestingarfélagsins Eglu sem keypti í Búnaðarbankanum á sínum tíma er rakin
 • Nýr ráðgjafi hjá Aton.JL segir frá muninum á auglýsingageiranum í London og Íslandi
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um áhrif Samherjamáls á kvótakerfið