Mörg spennandi verkefni eru framundan hjá FL Group, bæði í fjárfestingastarfsemi, í flugvélaviðskiptum og í hefðbundinni starfsemi félagsins í flugi og ferðaþjónustu. Þetta kemur fram í frétt sem félagið sendi frá sér áðan. Þar er nefnt sem dæmi að félagið hefur átt í viðræðum við aðaleiganda easyJet um nánara samstarf.

"Mikill vöxtur er í farþegaflugi Icelandair, spennandi framtíð í fraktflugi, m.a. með kaupunum á Bláfugli og mikil sókn inn á Asíumarkað í flugvélaviðskiptum. Við erum með mörg járn í eldinum og við munum vinna hratt á næstu vikum og mánuðum í þeim tækifærum sem blasa við um þessar mundir," er haft eftir Hannesi Smárasyni.