Hannes Frímann Hrólfsson og Frosti Reyr Rúnarsson, fyrrverandi yfirmenn í Kaupþingi, hafa fengið leyfi Fjármálaeftirlitsins til að reka Tinda verðbréf hf.

Frosti Reyr var forstöðumaður verðbréfamiðlunar Kaupþings en Hannes Frímann gegndi stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra fjárstýringar og markaðsviðskipta bankans.

Tindar hétu áður NordVest verðbréf og var nafninu breytt á hluthafafundi 23. desember. Örn Karlsson, Gunnlaugur M. Sigmundsson og Vilhjálmur Þorsteinsson í Teton eru þar hluthafar. Nýtt í hópnum er svo félagið Títon sem Skúli Mogensen rekur. Heildarhlutafé var aukið í desember og er nú 255 milljónir að nafnvirði.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa tveir starfsmenn Arion nú ákveðið að flytja sig til Tinda.

Á heimasíðu félagsins segir: „Helstu eignir fyrirtækja eins og Tinda eru starfsfólkið, eigið féð og orðsporið.  Við vitum að til þess að ná árangri þurfum við starfsfólk sem sýnir hollustu og hefur hæfileika, þekkingu og frumkvæði. Tindar munu beita sér fyrir heiðarlegum starfsháttum og góðu viðskiptasiðferði. Tindar munu ekki skorast undan þeirri ábyrgð að byggja upp íslenskan fjármálamarkað á tryggum undirstöðum.  Annað af tveimur meginverkefnum íslenskra fjármálafyrirtækja er að endurvinna traust almennings á fjármálakerfinu og hitt er að endurvinna traust íslensks fjármálamarkaðar gagnvart erlendum aðilum.  Við munum byggja Tinda upp á heilbrigðan og skynsaman hátt.  Félagið mun vaxa af varfærni og í samræmi við þau verkefni sem félagið tekur að sér."