Síðustu misseri og ár hefur mikið verið rætt um upptöku annars gjaldmiðils hér á landi og stór hluti bæði stjórnmálamanna og aðila í viðskiptalífinu.

Í ítarlegu viðtali við Hannes H. Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor, rifjar blaðamaður upp um 30 ára skrif Hannesar þar sem hann skrifaði um mikilvægi þess að kasta krónunni og taka upp Bandaríkjadal. Það er því forvitnilegt að vita hvort Hannes, sem sat sem fyrr segir um tíma í bankaráði Seðlabankans, sé enn á þeirri skoðun eða hvort hann hafi skipt um skoðun.

Umræddur kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér á vef Viðskiptablaðsins í heild sinni.

„Ég hef í raun ekki skipt um skoðun en ég sé núna betur báðar hliðarnar á málinu,“ segir Hannes nánar aðspurður um þetta.

„Ég byrjaði að skrifa um þetta snemma á níunda áratug og sagði þá að íslenska krónan hefði verið notuð til að leysa vandamál sem menn eiga að leysa á annan hátt. Samkvæmt öllu ættu laun að lækka beint þegar illa gengur og hækka þegar vel gengur, en Íslendingar hafa notað krónuna til að lækka laun óbeint. Þetta er eins og að drýgja súpuna með vatni.“

Hannes segir þó að í dag að í þessum skrifum hafi honum yfirsést eitt mikilvægt atriði.

„Við höfðum leyst þann vanda að við gátum ekki gert neina langtímasamninga í krónunni vegna þess hversu óstöðug hún var, með því að taka upp annan gjaldmiðil á Íslandi; verðtryggða krónu. Við vorum, og erum enn, með tvo gjaldmiðla í umferð á Íslandi,“ segir Hannes.

Einhverjir myndu nú halda því fram að verðtryggða krónan gagnist fjármagnseigendum eingöngu en ekki skuldurum sem eru með óverðtryggðar tekjur, skýtur blaðamaður inn í.

„Verðtryggða krónan tryggir það að verðgildið haldi sér,“ segir Hannes á móti.

„Við megum ekki gleyma því þegar við tölum um lán, að það er ekki bara einhver sem tekur lán heldur líka einhver sem veitir lánið. Sá aðili vill ekki sjá fjármagn sitt brenna upp í verðbólgu. Við tókum upp verðtryggða krónu af því að bankakerfið var að hverfa. Menn spyrja sig, skiljanlega, hvort það sé þá ekki ráð að taka upp nýjan gjaldmiðil sem gegnir þá sama hlutverki og verðtryggða krónan. Ég svara því til að fræðilega séð væri það rétt. En þá má spyrja hvort menn séu reiðubúnir að fara í alla þá aðlögun sem þarf ef þú ert með einhvern annan gjaldmiðil og ekki neitt peningavald sjálfur. Við þurfum að spyrja okkur hvort við höfum þann aga sem þarf til þess að lækka ríkisútgjöld, lækka laun og fleira. Ef við höfum þennan aga, þá má líka spyrja hvort við þurfum á annað borð nýjan gjaldmiðil þar sem við gætum gert þetta allt af sjálfsdáðum. Að sumu leyti erum við að bíta í skottið á okkur sjálfum í þessari röksemdafærslu. Aðalatriðið er að ef við eyðum um efni fram þá skiptir engu máli hvort skuldirnar séu í evrum eða krónum.“

En hver er þá skoðun þín í dag?

„Ég myndi segja að við ættum annaðhvort að halda í krónuna og koma okkur upp þeim aga sem til þarf, eða gera eins og margar litlar þjóðir nálægt stórum þjóðum hafa gert, að vera með myntslátturáð og tengja okkur við breska pundið,“ segir Hannes.

„Það er ekkert þjóðráð í sjálfu sér að taka upp evru eða Bandaríkjadal. Þá erum við bara að skipta um vandamálaböggul. Lausnin að þessu verður að koma innan frá okkur sjálfum. Við verðum að kunna okkur miklu meira hóf en við gerum, eyða ekki um efni fram og hegða okkur skynsamlega. Þar getum við lært mest af Svisslendingum.“

Nánar er rætt við Hannes í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fer Hannes yfir rúma þriggja áratuga baráttu sína fyrir frjálshyggjunni, stöðuna í stjórnmálunum, hlutverk ríkisvaldsins, orsakir bankahrunsins auk þess sem hann tjáir sig um samskipti sín við samkennara sína sem hann tekst oft á við á opinberum vettvangi.