Þrátt fyrir að íslenskri bankamenn kunni að hafa spilað glæfralega er meira sem kemur til sögunnar.

Þetta skrifar Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og bankaráðsmaður í Seðlabankanum í aðsendri grein í Wall Street Journal í dag. Greinin ber yfirskriftina: Ísland yfirgefið.

Hannes bendir á í grein sinni að Ísland hafi árið 1994 gerst aðili að EES samningnum. Með þeim samningi ætti ekki að skipta máli hvar fyrirtæki rækju starfssemi sína á svæðinu svo lengi sem þau fylgdu lög og reglum.

Þannig hafi íslensku bankarnir tekið  samninginn alvarlega og hafið starfssemi á meginlandi Evrópu, undir skilmálum EES samningsins.

Þá segir Hannes að þegar á reyndi hefðu seðlabankar annarra Evrópulanda, á sama efnahagssvæðinu, neitað að styðja íslenska seðlabankann til að vera þrautavaralánveitandi bankanna.

Þá segir Hannes í grein sinni að einhverjir íslensku bankanna hefði lifað kreppuna af ef Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands hefði ekki beitt ákvæði hryðjuverkalaga gegn Kaupþing og Landsbankanum.

Þannig hafi Brown valdið íslensku bönkunum og breskum sparifjáreigendum meiri skaða en ef hann hefði haldið ró sinni og unnið að því að leysa málin.

Þá gagnrýnir Hannes breska forsætisráðherrann fyrir að hafa mismunað þjóðum. Þannig hafi átta milljarða dala millifærsla bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers frá Bretlandi til Bandaríkjanna ekki landað bankanum á hryðjuverkalista breskra yfirvalda.

Sjá grein Hannesar Hólmsteins.