Sú hugsun sækir sífellt fastar að mér, að íslenska bankahruninu megi helst líkja við grískan harmleik, þar sem engu varð um ráðið og allir voru leiksoppar örlaganna þrátt fyrir góðan ásetning flestra.

Þetta segir Hannes H. Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, í pistli á vef Pressunar í dag. Hann segir að hvað sem því líði megi sjá að tveir aðsópsmiklir þátttakendur í þjóðlífinu misserin fyrir hrun áttu sér hliðstæður í fornum, grískum sögum.

Þannig hafi Davíð Oddsson verið Kassandra, sem var dæmd til að sjá allt fyrir, en enginn trúði. Hannes segir að árin 2003–2004 hafi Davíð reynt að veita auðjöfrunum viðnám, „en fjölmiðlar (flestir í eigu auðjöfranna), álitsgjafar (sumir á launum hjá auðjöfrunum), stjórnmálamenn (sumir á vænum styrkjum frá auðjöfrunum) og jafnvel dómarar lögðust á hina sveifina og réðu úrslitum,“ segir í pistli Hannesar.

Þá segir Hannes að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi vitaskuld verið Pandóra. Hún hafi raunar sjálf sagt hlæjandi í Kastljósi Sjónvarpsins 30. desember 2002: „Nú verð ég að fara að opna mitt pólitíska Pandórubox.“

„Líklega kunni hún ekki söguna um Pandóru, sem opnaði af forvitni kistu eina (ekki box, eins og Ingibjörg Sólrún sagði á vondri íslensku) þrátt fyrir bann við því,“ segir Hannes.

„Út úr kistunni stukku margvíslegar plágur, sem herjuðu síðan á mannkyn. Þetta gerðist svo sannarlega á Íslandi.“

Í lok pistil síns segir Hannes að einu megi þó ekki gleyma en það er að samkvæmt grísku sögunni varð vonin eftir á kistubotninum. Er eftir það sagt, að ekki sé öll von úti.

„Íslendingar geta vissulega vonast eftir betri tíð,“ segir Hannes.

„Þjóðin er vel menntuð og snögg að nýta sér ný tækifæri, og þótt Ísland sé ekki frjósamt land eða gjöfult, nægja auðlindir þess ríflega þeim þrjú hundruð þúsundum, sem það byggja. Ekki er öll von úti.“

Sjá pistil Hannesar í heild sinni.