Hæstiréttur hefur dæmt Hannes Hólmstein Gíslason, prófessor, til að greiða Auði Laxness, ekkju Halldórs Laxness, 1,5 milljón króna fyrir brot á höfundarétti, auk þess sem hann var dæmdur til að greiða henni 1,6 milljónir í málskostnað. Hannes hafði verið sýknaður í Héraðsdómi vegna málsins.

Málavextir eru þeir helstir að árið 2003 kom út bókin Halldór 1902-1932, ævisaga Halldórs Kiljans Laxness, eftir Hannes H. Gissurarson. Auður taldi að Hannes hefði við ritun bókar sinnar nýtt sér í miklum mæli texta Laxness og með því framið umfangsmikil brot á höfundarétti. Taldi hún í bókinni mætti finna 120 tilvik þar sem Hannes hefði brotið gegn höfundarlögum.  Krafðist hún þess að hann yrði dæmdur til refsingar, til greiðslu skaðabóta og til greiðslu miskabóta.

Refsikröfu var vísað frá í héraðsdómi þar sem talið var að sex mánaða frestur til höfðunar einkamáls hefði verið liðinn. Hæstiréttur taldi miskabótakröfu Auðar ekki eiga við þar sem réttur til slíkra bóka vegna brota á höfundarrétti væri bundinn við höfundinn sjálfan og gæti ekkjan ekki átt aðild að slíkri kröfu. Hannes var því sýknaður af þeim kröfulið.

Brot varða alls 210 blaðsíður úr verkum Laxness

Hins vegar var gagnkröfu Hannesar um fébótakröfu Auðar yrði vísað frá dómi var hafnað og talið að í um það bil 2/3 tilvika hefði Hannes með fébótaskyldum hætti brotið gegn höfundarétti að verkum Halldórs Laxness, með því að nýta sér texta Laxness ýmist lítt breyttan eða nokkuð breyttan en haldið stíleinkennum og notað þá einstaka setningar og setningarbrot notuð lítt breytt og án þess að vísa til heimildar. Ekki var fallist á með Hannesi að allsherjartilvísun hans í fimm minningarbækur Laxness í eftirmál ævisögunnar uppfyllti skilyrði höfundalaga um tilvísun.

Auður taldi að ef litið væri til allra tilvikanna hefði Hannes nýtt sér 320 síður eða byrjaðar síður úr ritverkum Halldórs. Var því ekki sérstaklega mótmælt, en ef fébótaskyldu tilvikin eru metin með sama hætti gætu þau  samsvarað rúmlega 210 síðum eða byrjuðum síðum úr verkum skáldsins. Fébætur til handa Auði voru metnar með hliðsjón af því og leiðbeinandi gjaldskrá Rithöfundasambands Íslands