*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Fólk 29. júní 2012 10:17

Hannes Hólmsteinn fær frelsisverðlaun SUS

Samband ungra Sjálfstæðismanna afhentir Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar í sjötta sinn. Amx.is fær einnig verðlaun í ár.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismann (SUS) hefur ákveðið að veita Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, stjórnmálafræðiprófessor, og vefnum amx.is Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar 2012. Verðlaunin verða afhent á morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SUS en SUS hefur afhent verðlaunin, einum einstaklingi og einum lögaðila, síðan árið 2007.

Í rökstuðningi SUS segir að Hannes Hólmsteinn hafi verið blaðamaður Eimreiðarinnar, sem ungir frjálshyggjumenn gáfu út 1972–1975, en Eimreiðarhópnum hafi tekist að færa Sjálfstæðisflokkinn, og þar með þjóðfélagið allt, í átt til frjálshyggju. 

„Hannes stofnaði ásamt öðrum Félag frjálshyggjumanna árið 1979 sem fékk m.a. Nóbelsverðlaunahafana Friedrich A. von Hayek, James M. Buchanan og Milton Friedman til að koma til landsins og tala um fræði sín. Einnig gaf Félag frjálshyggjumanna út ýmis rit, þ.á.m. tímaritið Frelsið 1980-1988, sem var fyrst undir ritstjórn Hannesar,“ segir í rökstuðningi SUS.

„Árið 1984 rak Hannes, ásamt Kjartani Gunnarssyni og fleirum, ólöglega útvarpsstöð, sem nefndist Fréttaútvarpið. Útvarpsstöðin var sett á fót í verkfalli opinberra starfsmanna í byrjun október en var síðan lokað með lögregluvaldi rúmri viku síðar og hlutu þeir dóm fyrir þetta tiltæki. Rekstur útvarpsstöðvarinnar hafði þau áhrif, að forysta Sjálfstæðisflokksins snerist til fylgis við frjálst útvarp. Árið 1990 gaf Hannes út bókina Fiskistofnarnir við Ísland: Þjóðareign eða ríkiseign?, þar sem hann mælti með kerfi varanlegra, framseljanlegra aflakvóta.“

Þá segir að Hannes Hólmstein hafi í áratugi verið talsmaður og baráttumaður fyrir auknu frelsi einstaklingsins og framgangi frjálshyggjunnar hér á landi. 

„Eftir hann liggja fjölmargar þýðingar, smárit og bækur um frjálshyggju og hugmyndafræði. Dugnaður hans í þágu hugmyndabaráttunnar er okkur öllum til fyrirmyndar,“ segir í rökstuðningi SUS og þar kemur fram að honum séu veitt Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar árið 2012 fyrir framangreint ævistarf sitt í þágu frelsis á Íslandi.

Sem fyrr segir eru verðlaunin afhent einum einstaklingi og einum lögaðila ár hvert. Amx.is fær verðlaunin sem lögaðili í ár en í rökstuðningi SUS kemur fram að ritstjórnarstefna vefsins byggist á borgaralegum gildum og er ritstjórn vefritsins sé óháð stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum en tekur afstöðu til málefna á grunni hugmynda um frelsi einstaklingsins. 

„Í því ástandi sem ríkt hefur undir stjórn núverandi ríkisstjórnar sl. 3 ár hefur AMX reynst dugmikið í baráttunni gegn yfirgangi vinstri aflanna,“ segir í rökstuðningi SUS.

„AMX hefur ekki síður veitt stjórnarandstöðunni, álitsgjöfum, fjölmiðlum og fræðimönnum nauðsynlegt aðhald. Stjórn SUS veitir vefnum AMX Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar árið 2012 fyrir það aðhald sem hann hefur veitt síðastliðin ár.“

Verðlaunin voru fyrst afhent árið 2007 þegar Andri Snær Magnason og Andríki hlutu verðlaunin. Margrét Pála Ólafsdóttir og Viðskiptaráð Íslands hlutu verðlaunin árið 2008, Davíð Scheving Thorsteinsson og Hugmyndaráðuneytið árið 2009, Brynjar Níelsson og InDefence árið 2010 og Ragnar Árnason og Advice árið 2011.