*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 5. nóvember 2014 12:35

Hannes Hólmsteinn: Hvað skýrir fjandskap Darlings?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hélt fyrirlestur í Þjóðarspeglinum, ráðstefnu Félagsvísindastofnunar HÍ, síðasta föstudag.

Ritstjórn
Alistair Darling var fjármálaráðherra Bretlands þegar sett voru hriðjuverkalög á Ísland og Landsbanka Íslands.
AFP

Í fyrirlestri sínum í Þjóðarspeglinum, ráðstefnu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á föstudag, fjallaði Hannes Hólmsteinn Gissurarson um áhrifaþæti hruns íslenska bankakerfisins.

Í erindinu sagði hann m.a. að rannsóknarnefnd alþingis hafi ekki gefið erlendum áhrifaþáttum nægilegan gaum. Þrjár ákvarðanir hefðu þar skipt miklu máli að mati Hannesar.

  1. Ákvörðun bandaríska seðlabankans að neita Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisskiptasamninga. Á sama tíma voru slíkir samningar gerðir við seðlabanka allra annarra ríkja Vestur-Evrópu.
  2. Ákvörðun ríkisstjórnar breska Verkamannaflokksins að neita breskum bönkum í eigu Íslendinga um lausafjárfyrirgreiðslu á meðan allir aðrir breskir bankar fengu slíka fyrirgreiðslu.
  3. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar í Bretlandi að setja hryðjuverkalög á íslensk fyrirtæki og stofnanir, en það gerði að engu allar vonir um endurreisn bankakerfisins.

Hannes fjallaði einnig um bók Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta. Hannes sagði bókina fróðalega.  Darling hefði samið hana um hlut sinn í hinni alþjóðlegu fjárkreppu, en bókin „Back from the Brink“ kom út árið 2011. Hann segir að Darling hafi minnst á Íslendinga nokkrum sinnum í bókinni með óvinsamlegum tóni. Hann hafi til dæmis haldið fram að íslenskir fjármálamenn hefðu styrkt breska Íhaldsflokkinn og íslenskir ráðamenn hefðu ferðast um í risaþotum. Hannes segir hvort tveggja rangt.

Hannes segir að Darling hafi haldið því fram að íslenskir ráðamenn hefðu annaðhvort leynt sig upplýsingum eða ekki vitað hvað væri að gerast. Sjálfur hefði Darling hins vegar ekki vitað neitt um hvað væri að gerast í skosku bönkunum, Royal Bank of Scotland, og HBOS.

Breskir skattgreiðendur þurftu að bjarga þessum bönkum árið 2008, en breska ríkið eignaðist 81% hlut í RBS og um 40% hlut í HBOS. Breska ríkið lagði breskum bönkum til 37 milljarða punda, um 7.000 milljarða króna, árið 2008.

Hannes benti í erindi sínu að bresk þingnefnd hefði árið 2009 komist að þeirri niðurstöðu að Darling hefði skýrt ranglega frá samtali sínu við Árna Mathiesen við fjölmiðla stuttu áður en hryðjuverkalögin voru sett á Íslendinga. Hannes segir að Darling segi öðruvísi frá því í bók sinni en hann hafi gert í samtölum við fjölmiðla áður.

„Augljós fjandskapur"

Hannes nefndi í erindi sínu nokkrar skýringar á „augljósum fjandskap" Darlings í garð Íslendinga, eins og hann kemst að orði.

Ein skýring gæti verið, að íslensku bankarnir væru orðnir of stórir að mati Darlings. Önnur skýring gæti verið, að íslensku bankarnir hefðu í harðri samkeppni laðað að sér viðskiptavini og bakað sér óvild í breska bankaheiminum. Þriðja skýringin gæti verið sú, að Darling hefði viljað sýna Skotum að það borgaði sig ekki fyrir smáríki að standa eitt og óstutt í heiminum. Darling ver eins og kunnugt er leiðtogi þeirra Skota sem vildu halda fast í sambandið við England og því harður andstæðingur sjálfstæðs Skotlands.