Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor flutti fjóra fyrirlestra á ráðstefnum á Norðurlöndum i ágúst. Þrjá þeirra hélt hann á norræna stjórnmálafræðingamótinu í Gautaborg. Einn þeirra var um Icesavedeiluna, annar var um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins á Íslandi og sá þriðji var um þróun íslenska velferðarríkisins í bólu og bankahruni. Þá hélt hann fyrirlestur á norræna sagnfræðingamótinu í Joensuu í Finnlandi um tvo Þjóðverja sem tengdust Íslandi, annars vegar gyðingakonu og hins vegar nasista sem síðar varð kommúnisti.

„Þessir fyrirlestrar mínir voru að vísu um ólík efni,“ sagði Hannes, „en þó má segja, að eitt hafi verið sameiginlegt stef í þeim: Hið veika getur lifað hið sterka af. Í Icesave-deilunni sýndu Íslendingar, að komast má langt með þrautseigju og þolinmæði, þótt sumir reyndu að telja kjark úr þjóðinni. Og þrátt fyrir allt hrundu múrarnir víðast á tuttugustu öld og nasisminn og kommúnisminn féllu, þótt eitthvað hjari ef til vill enn á Kúbu og í Norður- Kóreu.