„Þegar stjórnendur almenningshlutafélaga styrkja [...] stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka, sem fjandsamlegir eru hinu frjálsa atvinnulífi, eru þeir að vinna gegn hagsmunum fyrirtækisins og með því hluthafanna. Þá gengur þeim eitthvað óeðlilegt til.“

Þetta segir Hannes H. Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor, í pistli á vef Pressunar þar sem hann fjallar um styrki fyrirtækja til stjórnmálaflokka.

Hannes segir þar að það fari eftir eðli hvers fyrirtækis hvort það styrki stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn. Sé fyrirtæki í eigu einstaklings sé ekki því til fyrirstöðu að það veiti slíka styrki en málið vandist hins vegar þegar um almenningshlutafélag sé að ræða.

„Stjórnendur slíks fyrirtækis fara ekki með eigið fé, heldur annarra. Þeir eru ráðnir til að reka fyrirtækið með sem mestum arði. [...] Þann arð, sem þessum stjórnendum tekst að afla, eiga þeir undir venjulegum kringumstæðum að greiða út til hluthafanna, sem síðan ráðstafa því fé að eigin vild,“ segir Hannes í pistli sínum.

„ Hitt er annað mál, að leiða má rök að því, að venjulegu atvinnufyrirtæki sé í hag að vinna að sem hagstæðustu almennu umhverfi fyrir atvinnulífið. Útgjöld í því skyni séu jafneðlileg og útgjöld til kynningar eða áskriftargjöld að Samtökum atvinnulífsins eða Viðskiptaráðinu. Þess vegna kann að vera réttlætanlegt, að fyrirtæki styrki þá stjórnmálamenn og þá stjórnmálaflokka, sem hlynntir eru frjálsu atvinnulífi. Þegar stjórnendur almenningshlutafélags styrkja slíka aðila, eru þeir í raun að gæta hinna almennu hagsmuna hluthafanna af því, að umhverfið sé hagstætt fyrir atvinnulífið.“

Hannes segir að þess vegna séu styrkir fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins eðlilegir. Hann sé einn flokka hlynntur frjálsu atvinnulífi og hagstæðu almennu umhverfi fyrir atvinnufyrirtæki, eins og Hannes kemst að orði.

„Á sama hátt voru — og eru — styrkir, sem stjórnendur almenningshlutafélaga veita vinstri flokkum og vinstri mönnum, óeðlilegir,“ segir Hannes.

„Hið eina, sem vakir fyrir stjórnendum almenningshlutafélaga með slíkum styrkjum, er að kaupa einstaka menn eða flokka til einhvers, sem ekki er í samræmi við yfirlýsta vinstri stefnu þeirra.“

Sjá pistil Hannesar í heild sinni.