Rannsóknarnefnd Alþingis segir í skýrslu sinni að það sé athyglisvert að Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, hafi með höndum samninga við Hreiðar Má Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, um skuldbindingar félagsins Elliðatinda ehf., “félag sem lögformlega tengdist Hannesi ekki á neinn hátt en af umræddum tölvubréfssamskiptum má ætla að Fjárfestingafélagið Primus (síðar FI fjárfestingar ehf.), félag Hannesar, hafi verið í ábyrgð fyrir skuldbindingum Elliðatinda,” eins og orðrétt segir í skýrslu rannsóknarnefndar. Fjallað er um Elliðatinda í umfjöllum um útlán bankanna, í bindi 2, þar sem farið er yfir áhættuskuldbindingar.

Elliðatindar er skráð í eigu Gunnars Sturlusonar, faglegs framkvæmdastjóra lögmannsstofunnar Logos og náins viðskiptafélaga Hannesar. Félagið má rekja til þess þegar FL Group og Baugur náðu völdum í Glitni, á vormánuðum 2007, en Elliðatindar virðist hafa gegnt því hlutverki að styrkja stöðu FL og Baugs í hluthafahópi Glitnis. Tölvupósturinn sem vitnað er til í skýrslunni er frá Hannesi til Hreiðars Más, 27. desember 2007, þegar fjárhagur Elliðatinda var kominn í óefni. Eigið fé félagsins var á þessum tíma neikvætt um rúmlega 1,5 milljarða króna og bankinn var farinn að kalla eftir frekari tryggingum vegna lána. Fram kemur þó að fyrir hendi hafi verið lausafjártrygging upp á 1,3 milljarða. Í tölvubréfinu til Hreiðars Más býðst Hannes til þess að leggja fram ábyrgð upp á 750 milljónir til viðbótar. Pósturinn er eftirfarandi: Félög samstæðunnar“ „Vildi senda á þig stutta hugmynd varðandi elliðatinda sem gengur út á a) PG frá HS uppá 750 mkr afhent nú þegar b) Tryggingar í formi bankaábyrgðar, cash eða skráðra bréfa sem bankinn samþykkir afhent í vikunni sem byrjar 7. Janúar. PG undir lið a væri svo skipt út fyrir cash, bankaábyrgð eðs skráðra bréfa eigi síðar en 4 viku í janúar. Þannig væri þá komnir inn 1.500 miljónir til viðbótar á móti stöðunni og ráðrúm til að vinna næstu skref. Ég verð klár með fyrsta skammtin eftir 2 vikur og restina innan 4 vikna. Hefði viljað hitta á þig og ræða, get verið hvenær sem er eftir 16 í dag eða allan dag á morgun.“

Starfsmaður Kaupþings sendir Hreiðari Má tölvupóst þann 2. janúar 2008 þar sem hann segir: “Í raun tel ég að félagið standi enn verr heldur en lítur út þar sem þetta voru áætlaðar tölur frá þeim sjálfum.”

Gunnar lofar greiðslu – Hannes fær lánað frá Landsbankanum fyrir skuldum

Í janúar fóru fram nokkur bréfaskipti milli Gunnars Sturlusonar og Hannesar annars vegar og bankans hins vegar varðandi Elliðatinda. “Undir lok mánaðarins er þolinmæði bankans á þrotum og lofar Gunnar greiðslu,” segir m.a. í skýrslu rannsóknarnefndar. Eftir að starfsmaður Kaupþings gengur á eftir henni kemur í ljós að Hannes er að vinna í eignasölu og til greina kemur að nota fé sem fæst með sölu á íbúð í London og sölu á flugvél sem greiðslu upp í skuldina. Síðustu samskipti sem rannsóknarnefndin hefur undir höndum og varða Elliðatinda, er stöðuskýrsla frá Jakobi Bjarnasyni, starfsmanni Kaupþings, til Hreiðars Más en í henni kemur fram að lögfræðingur Hannesar, Gunnar Sturluson, hafi dregið sig í hlé. Ekkert er skýrt hvers vegna ekki er gengið frekar á Gunnar um að leggja fram ábyrgðir. Athugasemdir Jakobs voru eftirfarandi, í tölvubréfi:

"Elliðatindar - HS er að tefja tímann. Hann kom til baka með tillögu um að við tækjum félögin og flugvélina og hann yrði laus allra mála. Setti á lögfræðing hans að það myndi ekki duga, við vildum líka fá veð í íbúðinni og verðbréfasafninu hans þar. Svar lögfræðingsins var að HS væri með málið, m.ö.o., lögfræðingurinn hans hefur dregið sig í hlé. Mun ekki gefa HS neinn frið fyrir mér fyrr en þessu er lokið af eða á.“

Pressa frá Landsbankanum

Í Landsbanka Íslands var farið að ræða sértækar niðurfærslur á útlánum í apríl 2008. Í tölvubréfssamskiptum starfsmanna bankans kemur fram að gert sé ráð fyrir að tap Elliðatinda sé endanlegt tap og að það verði keyrt í gegnum AH-reikninginn þeirra. Á þessum tímapunkti var þetta eina afskriftaframlagið vegna afleiðna í bankanum. Samkvæmt tölvubréfi frá 11. júní hafði lokauppgjör farið fram vegna Elliðatinda með þeirri afleiðingu að tékkareikningur 0106-26-1129 er í mínus um 205.707.580. Í kjölfarið taka við umræður starfsmanna bankans um innheimtuaðgerðir gagnvart Gunnari Sturlusyni og þar með Hannesi, sem vitnað er til í skýrslunni.

Málefni Elliðatinda virðist að lokum leyst með samkomulagi við Hannes Smárason. Í tölvubréfi milli starfsmanna Landsbankans kemur fram að skuld Elliðatinda verði greidd með láni sem Fjárfestingarfélagið Primus tekur þrátt fyrir að Elliðatindar séu lögformlega ekki í neinum tengslum við Hannes. Heldur aðeins Gunnar Sturluson.