Verjandi Hannesar Þórs Smárasonar, fyrrverandi stjórnarformanns FL Group, krafðist þess fyrir dómi í morgun að máli sérstaks saksóknara gegn honum yrði vísað frá dómi. Hannes er ákærður fyrir fjárdrátt, með því að hafa dregið sér fé af fjármunum FL Group árið 2005.

Mál embættis sérstaks saksóknara á hendur Hannesi snýst um viðskipti tengd sölu FL Group á danska flugfélaginu Sterling til Fons. Hannes er ákærður fyrir fjárdrátt og umboðssvik til vara þegar 46,5 milljónir dala, jafnvirði tæpra þriggja milljarða íslenskra króna, voru millifærðar af reikningi FL Group undir lok apríl árið 2005 inn á annan reikning félagsins sem Hannes hafði látið stofna nokkrum dögum fyrr hjá Kaupþingi í Lúxemborg. Peningarnir voru síðan færðir yfir á reikning Fons eignarhaldsfélagsins, sem var undir stjórn Pálma Haraldssonar. Í ákæru í málinu segir að sérstakur saksóknari telji millifærsluna ekki hafa verið í þágu FL Group og án vitundar lykilstjórnenda.

Þá kemur einnig fram að fjármunirnir hafi ekki skilað sér aftur á reikning FL Group frá Fons fyrr en rúmum tveimur mánuðum síðar, eftir þrýsting, meðal annars frá þáverandi forstjóra félagsins, Ragnhildi Geirsdóttur. Fyrir þann tíma var millifærslan ekki færð í bókhald félagsins.

Á vef RÚV segir að Hannes byggi frávísunarkröfu sína á þremur ástæðum, að verknaðarlýsing í ákæru sé ófullnægjandi, að alvarlegir ágallar hafi verið á rannsókn lögreglu og lögregla hafði brotið lög. Þá liggi fyrir staðfesting að féð hefði ekki verið millifært af reikningnum.