Hannes Smárason og Pálmi Haraldsson hittust á kvöldfundi þann 16. október 2005 og gengu frá helstu atriðum samkomulags um að FL Group myndi kaupa Sterling af Fons, félagi Pálma, á fimmtán milljarða króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Samkomulagið gekk þá undir heitinu „FL Midnight“.

Ragnhildur Geirsdóttir, þáverandi forstjóri FL Group, var ekki höfð með á þeim fundi. Hannes var á þeim tíma starfandi stjórnarformaður FL Group.

Ragnhildur lét af störfum hjá FL Group þremur dögum síðar. Kaupin voru síðan afgreidd á stjórnarfundi tveimur dögum seinna.

Fons hafði keypt Sterling á fjóra milljarða króna nokkrum mánuðum áður. Þetta kemur meðal annars fram í fundargerðum af stjórnarfundum FL Group frá þessum tíma, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .