Hannes Smárason og Pálmi Haraldsson hafa ekki gefið út yfirlýsingu þar sem þeir fallast á þau skilyrði sem sett voru fyrir frávísun stefnu slitastjórnar Glitnis á hendur þeim, fimm öðrum einstaklingum og PWC í New York 14. desember síðastliðinn. Í bréfi sem Michael C. Miller, lögmaður slitastjórnarinnar, sendi Charles E. Ramos, dómara málsins, á mánudag kemur ennfremur fram að Hannes og Pálmi hafi einnig gefið í skyn að þeir ætli sér ekki að gefa út slíkar yfirlýsingar.

Tvö skilyrði fyrir frávísun

Þegar málinu var vísað frá setti Ramos dómari tvö skilyrði fyrir frávísuninni: að hinir stefndu myndu mæta sjálfviljugir fyrir íslenska dómstóla og mótmæla ekki lögsögu þeirra, og að þeir settu sig ekki upp á móti því að lokaúrskurður í málinu yrði aðfarahæfur í New York gegn þeim eignum sem sakborningar gætu átt í Bandaríkjunum. Hinir stefndu áttu að staðfesta að þeir undirgangist skilyrðin skriflega

Þar sem skilyrði frávísunar málsins hafi því ekki verið uppfyllt fer Miller fram á málareksturinn fái að halda áfram fyrir dómstólum í New York.

Vilja fá tvo milljarða dali

Málið snýst um að slitastjórn Glitnis krefst þess að hinir stefndu greiddu sér tvo milljarða dali,  232 milljarða króna, fyrir að hafa rænt Glitni að innan. Slitastjórnin áfrýjaði einnig málinu til æðra dómstigs í byrjun febrúar.

Hinir stefndu í málinu eru Jón Ásgeir Jóhannesson, Pálmi Haraldsson, Hannes Smárason, Jón Sigurðsson, Lárus Welding, Ingibjörg Pálmadóttir, Þorsteinn M. Jónsson og endurskoðunarfyrirtækið PWC.