Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, gefur lítið fyrir þá málsvörn sem Einar Kárason teiknar upp í bókinni Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, í opnugrein í Morgunblaðinu í dag um bókina. Í greininni fer Hannes um víðan völl og kemur til að mynda inn á Bolludagsmálið, Baugsmálið, aðkomu Evu Joly að hrunrannsóknum og Aurum málið þar sem Hannes telur að Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Sjá einnig: Jón Ásgeir svarar fyrir sig

„Mér finnst saga hans ekki vera píslarsaga og því síður helgisaga, heldur um ofmetnað, sem Grikkir kölluðu hybris. Þessi geðslegi og prúði maður kunni ekki að setja sér mörk. Hann fór fram úr sjálfum sér. Hann blindaðist af velgengni sinni. Þegar hann kvartar undan ofsóknum gegn sér, er rétt að hafa í huga, að hann var um skeið einn auðugasti maður Íslands. Fórnarlömb þeysa venjulega ekki um í einkaþotum og lystisnekkjum. Og Jón Ásgeir hefur haft efni á að ráða sér bestu lögfræðinga og skrásetjara, sem völ er á,“ segir Hannes.

Ný öld undir forystu Davíðs

Hannes segist kunna ágætlega við Jón Ásgeir og hann hafi marga mannkosti, eins og Einar lýsir í bókinni. Jóni Ásgeiri og Jóhannesi, föður hans hafi tekist vel upp með Bónus sem skilaði almenningi lægra vöruverði.

„Er sú saga hin ævintýralegasta og besti hluti bókarinnar. Undir forystu Davíðs Oddssonar var að renna upp á Íslandi ný öld, þar sem lánsfé var ekki skammtað eftir flokksskírteinum, heldur mati fjármálastofnana á endurgreiðslugetu lántakenda (og vonum þeirra um þóknanir). Jafnframt voru fjármagnshöft í erlendum viðskiptum afnumin. Þeir feðgar nutu útsjónarsemi sinnar og dugnaðar og urðu brátt ríkir á íslenskan mælikvarða. Ég var einn þeirra, sem dáðist að þeim. En mikið vill meira,“ segir Hannes.

Vildi ekki Jón Ólafs vegna stuðnings við R-listann

Jón Ásgeir, Jón Ólafsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Eyjólfur Sveinsson leiddu kaup á helmingshlut ríkisins í Fjárfestingabanka atvinnulífsins árið 1999 við lítinn fögnuð Davíðs. Hannes segir andstöðu Davíðs við kaupinn eiga sér eðlilega skýringar og fólust í óvild Davíðs gagnvart Jóni Ólafssyni sem „Davíð hafði litlar mætur á, ekki síst eftir að hann studdi R-listann fjárhagslega í Reykjavík 1994 og reyndi að fá vinstri flokkana til að mynda stjórn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar 1999.“

Sjá einnig: Vorkennir Davíð

Þá hafi Jón Ásgeir og Baugur á næstu árum orðið mjög umsvifamikill á öðrum sviðum smásölu.

Átti skilið að tapa á Gunnari Smára

Hannes fer einnig yfir þann hluta sem snýr að fjölmiðlarekstri Jóns Ásgeirs. Hannes segir það rangt sem haldið er fram í bókinni að Jón Ásgeir hafi aldrei skipt sér af ritstjórn fjölmiðla í sinni eigu.

Sjá einnig: Sósíalistaforingi á einkaþotu

Hannes kemur einnig inn á útrás fjölmiðlaveldisins, sem Gunnar Smári Egilsson leiddi. „Gerðist hann eins konar áróðursstjóri Jóns Ásgeirs, sem keypti upp nær alla íslensku einkamiðlana, sjónvarpsstöð, dagblöð og tímarit. Brátt varð Ísland of lítið líka fyrir Gunnar Smára, og vorið 2006 hófu þeir Jón Ásgeir útgáfu dansks auglýsingablaðs, Nyhedsavisen. Ég hef orðið þess áþreifanlega var, að það fyrirtæki hleypti illu blóði í ráðamenn í dönsku viðskiptalífi og jók tortryggni í garð íslensku bankanna, enda gaf Danske Bank út skýrslu skömmu seinna um, að þeir væru sennilega ekki sjálfbærir,“ segir Hannes.

Þar hafi Jón Ásgeir tapað minnst sjö milljörðum króna. „Menn, sem afhenda Gunnari Smára ávísanahefti, eiga skilið að tapa fé.“

Sjá einnig: Neitaði að handtaka Jón Ásgeir

Hannes segist einnig hafa spurt Davíð út í það sem fram kemur í bókinni að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hafi sagt Davíð í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum snemma sumars 2002, að nú ætti að nú ætti að láta til skarar skríða gegn Baug og Davíð hafi í kjölfarið sussað á Harald. Hannes hefur eftir Davíð sjálfum að þetta sé alrangt.

Þá átelur Hannes Ólaf Ragnar Grímsson, þáverandi forseta Íslands, fyrir að vitna í einkasamtal við Davíð, þáverandi forsætisráðherra um rannsókn Baugsmálsins.