Hannes Frímann Sigurðsson hefur verið ráðinn sem verkefnastjóri við Byggingavettvang, BVV, sem er samstarfsvettvangur Samtaka iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Mannvirkjastofnunar, Íbúðalánasjóðs, þriggja ráðuneyta, menntastofnana, nokkurra fyrirtækja og aðila sem starfa á sviðum sem tengjast byggingarstarfsemi með einhverjum hætti.

Hannes Frímann hefur frá árinu 2012 verkefnastýrt úrvinnslu þróunarverkefna hjá Hömlum sem er dótturfélag Landsbankans. Hann starfaði áður sem verkefnastjóri hjá fasteignafélaginu Reginn. Hannes Frímann hefur þegar hafið störf.

Tilgangur BVV er að efla innviði og auka samkeppnishæfni innan byggingageirans með virðisauka fyrir þau fyrirtæki sem við hann starfa, efla samtal innan geirans um hagsmunamál hans og stuðla að faglegri umræðu.