Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands, skrifar grein í Morgunblaðið þar sem hann gagnrýnir bók, sem Gísli Pálsson mannfræðingur ritstýrði ásamt Bandaríkjamanni, og ber heitið „Gambling Debt. Iceland's Rise and Fall in the Global Economy“. Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands hefur boðað til hádegisfundar vegna bókarinnar í dag.

Sæma þessar aðdróttanir vísindariti?

Hannes segir að í bókinni sé hvellur reiðitónn sem fari illa í vísindariti og bendir þannig á ýmsar upphrópanir og aðdróttanir í ritinu sem koma frá höfundum þess. Nefnir hann þannig að Gísli byrji beinlínis árás sína á frjálshyggju með því að líkja henni við nasisma. Það geri hann með samanburði frjálshyggjunnar við framgöngu Adolfs Eichmanns, yfirmanns í SS-sveitinni í seinni heimsstyrjöldinni, og fræga lýsingu á „hversdagslegri mannvonsku“ hans.

Í greininni nefnir Hannes einnig að Gísli tali um „Icelandic bandit-financiers“ og segi Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa hafa með sjónvarpsávarpi sínu í bankahruninu „been reduced to a prophet and a clown“. „Sæma þessar upphrópanir og aðdróttanir í vísindariti,“ spyr Hannes.

Hannes segir að þótt Gísli spari ekki stóryrðin í innganginum hafi hann verið naumari á tíma í yfirlestur. Í bókinni séu furðulegar villur, og nefnir Hannes því til stuðnings ýmsar staðreyndavillur sem finna má á blaðsíðum bókarinnar.

Orsakasambandið ekkert

Þá segir Hannes aðferðafræði bókarinnar einfalda. „Hún er að hrúga saman ýmsum hugmyndum, sem höfundum er í nöp við, og kalla einu nafni orsök, en lýsa síðan bankahruninu sem afleiðingu þessara hugmynda,“ segir Hannes.

Nefnir hann eina hugmynd sem höfundum bókarinnar sé meinilla við; að kvótakerfið sé hagkvæmt. „Þeirri hugmynd til stuðnings má þó nefna þá einföldu staðreynd, að íslenskur sjávarútvegur er í senn sjálfbær og arðbær, en víðast annars staðar eru fiskveiðar reknar með tapi og stórkostlegum opinberum styrkjum. Og fráleitt er að kalla kvótakerfið eina af orsökum bankahrunsins.“

Hannes segir höfundum bókarinnar þó vera verst við frjálshyggju, sem þeir kalli gjarnan „nýfrjálshyggju“. Hún sé að þeirra sögn meginorsök bankahrunsins. Í því samhengi bendir Hannes hins vegar á að vissulega hafi atvinnufrelsi verið mikið á Íslandi og samkvæmt alþjóðlegum mælingum hafi íslenska hagkerfið verið hið þrettánda frjálsasta af 130 hagkerfum árið 2004.

„En það merkir að tólf hagkerfi voru þá frjálsari, þar á meðal Singapúr, Hong Kong, Sviss, Bretland, Bandaríkin, Nýja Sjáland, Ástralía, Eistland og Lúxemborg. Ef aukið atvinnufrelsi var ástæðan til bankahrunsins, hvers vegna kollsteyptust þá ekki hagkerfi þessara landa í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu?“

Höfundar gera lítið úr Íslendingum

Í lok greinarinnar, sem er löng og lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu, segir Hannes:

„Höfundar þessarar bókar reyna af einkennilegum ákafa að gera lítið úr Íslendingum. Þeir geta þess ekki, að breskir ráðamenn sögðu hvað eftir annað ósatt um Íslendinga, svo að ekki sé minnst á fólskuverk þeirra. Engar ólöglegar millifærslur reyndust vera frá Lundúnum til Reykjavíkur fyrir bankahrun. Íslenski fjármálaráðherra sagði aldrei, að Íslendingar myndu svíkja skuldbindingar sínar, eins og Alistair Darling hélt fram. Ísland var ekki gjaldþrota, eins og Gordon Brown fullyrti. Þótt höfundar þessarar bókar geri lítið úr Íslendingum, gera þeir enn minna úr sjálfum sér, ef þeir líka frjálshyggju við nasisma Adolfs Eichmanns.

Væntanlega kemur fram á fundinum í dag, hvort ritstjórinn tali þar fyrir hönd þeirra allra.“