Efnahagsstjórn fráfarandi ríkisstjórnar og afstaða hennar í Icesave málinu eru stærstu áæstæðurnar fyrir því afhroði sem stjórnarflokkarnir báðu í alþingiskosningunum í apríl að mati Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Í grein sem birtist eftir hann í Wall Street Journal í dag skýrir hann úrslit kosninganna.

Í fyrsta lagi segir hann að sú söguskýring Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar að kjósendur hafi hafnað aðhaldsstefnu ríkisstjórnarinnar og erfiðum ákvörðunum sem þurft hafi að taka í kjölfar bankahrunsins. Bankahrunið hafi verið afleiðing nýfrjálshyggjustefnu fyrri hægristjórna. Segir Hannes aftur á móti að fráfarandi ríkisstjórn hafi ekki stundað neitt aðhald í ríkisrekstrinum. Hún hafi einfaldlega hætt opinberri fjárfestingu, þar á meðal innviðaviðhaldi, hækkað skatta mjög mikið, sett á gjaldeyrishöft og haft í hótunum við hinn vel rekna sjávarútveg landsins.

Engin nýfrjálshyggja

Þetta hafi haft þær skiljanlegu afleiðingar að fjárfesting í einkageiranum hafi dregist mjög saman. Samkvæmt nýjustu tölum hafi lítill sem enginn hagvöxtur verið á Íslandi í fyrra. Samhliða þessu hafi ríkissjóður verið rekinn með svo miklum halla að skuldir hans séu nú nánast óviðráðanlegar.

Þá segir hann að engin nýfrjálshyggjutilraun hafi nokkurn tíman verið reynd á Íslandi. Vissulega hafi meira frelsi verið innleitt á mörkuðum hér á landi undir stjórn Davíðs Oddssonar á árunum 1991 til 2004, gengi krónunnar hafi verið stöðugt, mikið hafi verið um einkavæðingu, skattar einfaldaðir og lækkaðir og hagkvæmt sjávarútvegskerfi verið útfært. Tekjur af eignasölu hafi verið notaðar til að lækka skuldir ríkissjóðs umtalsvert.

Markmiðið með þessum breytingum hafi ekki verið að búa hér til frjálshyggjuparadís, heldur einfaldlega að ýta undir verðmætasköpun í atvinnulífinu líkt og lönd eins og Bretland hafi gert. Í stjórnartíð Davíðs hafi íslenska hagkerfið vaxið hratt og að lífskjör hafi batnað hjá öllum tekjuhópum.

Klíkukapítalisminn tók við

Að mati Hannesar varð hins vegar breyting til hins verra á árunum 2004 til 2008, þegar klíkukapítalismi hafi tekið við af markaðskapítalismanum. Fámennur hópur ævintýramanna undir stjórn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, hafi náð tökum á flestum stærstu fyrirtækjum landsins og flestum fjölmiðlum landsins. Fáir stjórnmálamenn hafi þorað að standa uppi í hárinu á þessum mönnum.

Ævintýramennirnir hafi svo fengið of há lán hjá bönkunum og lögðu að veði sömu eignirnar aftur og aftur. Sumar fjárfestingar þeirra reyndust réttar, en aðrar ekki. Það að svo stór hluti útlána bankanna væri til svo fámenns hóp skuldara skapaði einstaka kerfisáhættu fyrir íslenska bankakerfið.

Hannes segir að stærsta ástæðan fyrir falli bankanna hafi verið sú að bankarnir hafi verið orðnir of stórir til að Ísland gæti eitt staðið undir þeim. Vitað sé nú að alþjóðlega bankakreppan hafi komið til vegna þeirrar stefnu að aldrei megi leyfa banka að verða gjaldþrota. Þetta hafi hvatt til óeðlilegrar áhættusækni hjá bönkum og þar með leitt til skuldabólu.

Ísland hafi lítið getað gert til að koma í veg fyrir þennan vöxt íslensku bankanna vegna reglna EES-samningsins. Bankarnir hafi breitt úr sér út fyrir landsteinana og farið að taka við innlánum frá erlendum innstæðueigendum.

Þar má svo að mati hans finna stærstu ástæðuna fyrir því að íslenskir kjósendur misstu traustið á ríkisstjórninni. Hún hafi bognað undan mjög háværum kröfum Breta og Hollendinga og tvívegis skrifað undir samninga um ábyrgð íslenska ríkisins á skuldum Landsbankans við tryggingasjóði þessara þjóða, en íslenska þjóðin hafi hafnað þeim báðum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Kjósendur hafi ekki talið sig eiga að bera ábyrgð á skuldum einkaaðila.

EFTA-dómurinn skipti sköpum

Dómur EFTA-dómstólsins í málinu, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið bæri enga ábyrgð á innstæðum á Icesave reikningunum, er að mati Hannesar úrslitastund í þessu máli. Niðurstaðan hafi búið til þjóðarhetju úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Formaður Framsóknarflokksins hafi verið eini flokksformaðurinn sem staðið hafi á móti öllum Icesave-samningunum. Framsóknarflokkunum hafi skotið upp í könnunum á meðan fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem hafi verið öllu volgari í sinni andstöðu við Icesave samningana, hafi dalað, þótt hann hafi á endanum heimt hluta af því fylgi til baka.

Hannes klykkir út með því að segja að aðild að Evrópusambandinu sem dautt mál á Íslandi. Samfylkingin sé eini flokkurinn sem enn vilji inngöngu í sambandið og að Ísland eigi greinilega meira sameiginlegt með jaðarríkjum Evrópu, Noregi, Bretlandi, Sviss, Danmörku og Svíþjóð en með innri kjarna Evrópusambandsins. Ef til vill sé ESB ekki samevrópskt verkefni heldur aðeins verkefni meginlands Evrópu.