„Auðvitað verður maður að halda áfram og reyna að gera góða hluti,“ segir Hannes Smárason, forstjóri NextCode, sprotafyrirtækis sem óx út úr Íslenskri erfðagreiningu og stefnir á að selja sjúkdómsgreiningar til lækna og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum.

Hannes var áður aðstoðarforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar frá stofnun fyrirtækisins og fram til ársins 2004. Þá hætti hann til að einbeita sér að störfum sem stjórnarformaður Flugleiða. Síðan var hann forstjóri FL Group. Þar hætti hann eins og kunnugt er undir lok árs 2007. Fyrirtækið tapaði tæpum 70 milljörðum króna sama ár. Annað eins hefur ekki sést í íslenskri fyrirtækjasögu. Síðan þá hefur lítið heyrst af Hannesi.

Með viðskiptavini í fjórum heimsálfum

VB.is greindi frá því á miðvikudag að Hannes hafi sest í forstjórastól NextCode og tryggt sér 15 milljóna dala, jafnvirði næstum tveggja milljarða króna,  fjármögnun frá bandarísku áhættufjárfestingasjóðunum Polaris Partners og ARCH Venture Partners. Þetta eru sömu fjárfestar og fjármögnuðu fyrstu skref Íslenskrar erfðagreiningar á sínum tíma og hafa nokkrum sinnum síðan þá stutt við fyrirtækið. NextCode hefur samið við Íslenska erfðagreiningu um kaup á erfðagreiningum í fimm ár.

Hannes segir nú í samtali við VB.is hafa haldið góðu sambandi við þessa gömlu kunningja sína hjá bandarísku sjóðunum og unnið töluvert með þeim á ýmsum sviðum, þar á meðal við söluna á Íslenskri erfðagreiningu til bandaríska fyrirtækisins Amgen fyrir tæpu ári.

„Þetta er næsta skrefið í kjölfarið á því,“ segir hann og telur fjármögnunina eiga að duga NextCode í töluvert langan tíma.  Hannes segir vettvanginn geysilega spennandi og mikið í gangi.  Starfsmenn NextCode eru á bilinu 7 til 10 og er fyrirtækið rétt að taka til starfa. Það hefur þegar gert samninga við fjögur sjúkahús í jafn mörgum heimsálfum, eitt í Bandaríkjunum, annað í Bretlandi, Ástralíu og í Japan.

Vann að stofnun NextCode í tvö ár

Kári Stefánsson sagði í samtali við VB.is á miðvikudag mikilvægt að nýta þekkingu manna sem hafi farið geyst fyrir hrun og því settir út af sakramentinu. Hann taldi þetta eiga við um Hannes, hann hafi verið í sóttkví í sex ár og tímabært að nýta þekkingu hans.

„Hann kemst alltaf vel að orði,“ segir Hannes um mat Kára en vill ekki tjá sig frekar um þau.

„Þetta er mikilvæg vinna. Ég hef töluverða þekkingu á þessu sviði og er búinn að vinna við þetta meira eða minna í síðastliðin eitt og hálft eða tvö ár. Það er gaman að geta komið aftur í þennan geira  og geta gert góða hluti,“ segir hann um NextCode og væntir mikils af því.