Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, segist sjá eftir mörgum ákvörðunum sem hann tók í stjórnartíð sinni.

„Ég held að það sé óhjákvæmilegt að allir horfi um öxl og líti á þá hluti sem betur máttu fara, það væri í raun fáránlegt að skorast undan því að horfa í eigin barm. En það að kenna tilteknum einstaklingum um stöðuna er misráðið og ekki til þess fallið að hjálpa okkur upp úr því hjólfari sem við erum nú í,“ sagði Hannes í þættinum Markaðurinn á Stöð 2 í dag.

„Það er augljóst þar sem við sitjum í dag og horfum um öxl að menn hefðu átt að stækka hægar og ganga rólegar til leiks en gert var. Það er að verða komið ár síðan ég sat sjálfur í stjórn fyrirtækis hér á landi, en ég vildi nú að við hefðum stækkað FL Group hægar á sínum tíma.“

Hannes lýsti þeirri skoðun sinni að varpa þurfi betri sýn á ákveðna hluti.

„Margir íslensku bankanna voru t.d. í endurhverfum viðskiptum við Seðlabanka Evrópu og eftir því sem mér skilst tók sá banki margar ákvarðanir sem komu sér mjög illa fyrir íslensku bankan,“ sagði Hannes.

Hann sagði Seðlabanka Evrópu hafa fært niður tryggingar sem bankarnir lögðu fram, m.a. í ríkisskuldabréfum, þannig ða bankarnir þurftu að leggja fram nýjar tryggingar. Hannes sagðist velta fyrir sér hverra erinda Seðlabanki Evrópu hafi verið að ganga.

„Það þarf einnig að skoða gjaldeyrisflæðið, hverjir voru að taka stöðu í krónunni og hvers vegna hún féll svo mikið sem raun ber vitni í vor.“