Oddaflug, eignarhaldsfélag Hannesar Smárasonar stjórnarformanns í FL Group, sem á um 35,5% hlut í félaginu ber ekki lagaleg skylda að gera öðrum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð. Þetta er niðurstaða yfirtökunefndar sem hefur haft málið til skoðunar á undanförnum viknum.

Ástæður þess að nefndin tók þetta mál til skoðunar er að 1. júlí síðastliðinn var tilkynnt um verulegar breytingar á eignarhaldi í FL Group. Þær breytingar leiddu til þess að Oddaflug var komið með 35,5% hlutafjár í Fl Group en á sama tíma höfðu Baugur Group og Katla Investments tryggt sér annars vegar 12,4% hlut (Baugur) og 17,7% hlut (Katla) í félaginu í gegnum framvirkan samning við Landsbankann.

Athugun nefndarinnar fólst í því að meta tvennt. Annars vegar hvort Oddaflug hefði haft samstarf við Katla Investment og eða Baug um að ná yfirráðum í félaginu, en ef svo væri, lægi ljóst fyrir, að til yfirtökuskyldu hefði stofnast samkvæmt nýjum verðbréfaviðskiptalögum sem samþykkt voru nú í vor. Hins vegar , hvort slík viðskiptaleg tengsl væri milli Oddaflugs og Katla Investment og/eða Baugs, að þau fullnægðu skilyrðum 3. mgr. 37. gr. laganna um verðbréfaviðskipti. Ef svo er teldust löglíkur fyrir því, að um samstarf hefði verið að ræða, nema þessir aðilar geti sýnt fram á annað.

Í áliti nefndarinnar kemur fram að ef staðreynt hafði verið að stjórnarformaður FL Group hefði leitað samkomulags við Katla Investment og/eða Baug um kaup þessara aðila á hlutum í FL Group, samtímis því sem Oddaflug, jók hlutafé sitt úr 30,54% í 35,46%, í því skyni að ná yfirráðum, gæti komið til þess að Oddaflug, yrði yfirtökuskylt. Athugun nefndarinnar, sem byggði meðal annars á viðtölum við Hannes Smárason, Magnús Ármann og Sigurð Ásgeir Bollason stjórnarmenn Katla Investment og Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformann Baugs, leiddi ekki í ljós að unnt sé að draga slíka ályktun með neinni vissu.