Hannes Smárason aðstoðarframkvæmdaforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur ákveðið að láta af starfi sínu hjá félaginu til að einbeita sér að starfi stjórnarformanns Flugleiða. Hann mun áfram verða ráðgjafi hjá fyrirtækinu.

"Hannes hóf störf hjá Íslenskri erfðagreiningu skömmu eftir stofnun og hefur í sjö ár verið lykilmaður í vexti fyrirtækisins og þróun þess í fullburða líftækni-lyfjafyrirtæki. Um leið og við þökkum góðum félaga fyrir vel unnin störf óskum við honum alls hins besta í framtíðinni," sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í tilkynningu frá fyrirtækinu. ?Starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar hefur sjaldan verið meira spennandi því við erum byrjuð að prófa lyf sem erfðafræðirannsóknir hafa skilað okkur. Á næstunni stefnum við að því að ráða til fyrirtækisins stjórnendur með reynslu og þekkingu á regluverki, leyfisveitingum og markaðssetningu úr lyfjaiðnaðinum til að fylgja eftir viðskiptaáætlunum fyrirtækisins."

?Ég lít á það sem forréttindi að hafa fengið að taka þátt í að byggja upp eitthvert merkilegasta líftæknifyrirtæki heimsins með Kára Stefánssyni og öðru starfsfólki Íslenskrar erfðagreiningar. Fyrirtækið er í dag mjög vel í stakk búið til að hrinda markmiðum sínum í framkvæmd og ég hlakka til að fylgjast með framgangi þess. Ég vil líka þakka öllu starfsfólki Íslenskrar erfðagreiningar fyrir samstarfið og fyrir að deila með mér áhuga sínum á að skapa nýja þekkingu í læknisfræði," sagði Hannes Smárason.