„Hannes er búinn að vera í sex ár í sóttkví. Það þarf að nýta þá þekkingu sem strákurinn hefur,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, hefur verið ráðinn forstjóri sprotafyrirtækisins NextCode Health sem Íslensk erfðagreining hefur stofnað. Fyrirtækið sem Hannes stýrir mun markaðssetja sjúkdómsgreiningu byggða á rannsóknum ÍE til lækna og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum.

Bandarísku fjárfestingarsjóðirnir Polaris Partners og ARCH Venture Partners hafa lagt fyrirtækinu til 15 milljónir dala, jafnvirði tæpra 1,8 milljarða íslenskra króna.

Hannes Smárason var aðstoðarforstjóri ÍE á árunum 1996 til 2004 en varð forstjóri FL Group haustið 2005. Eftir umfangsmiklar fjárfestingar FL Group hætti hann skyndilega sem forstjóri rétt fyrir jólin 2007. FL Group hafði þá farið illa út úr kaupum á stórum hlutum í AMR, móðurfélagi bandaríska flugfélagsins American Airlines, Commerzbank og fjárfestingum í fleiri verkefnum. Lítið hefur heyrst af Hannesi síðan þá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Leigustyrkir geta brotið gegn ESB
  • Landsbankinn er kóngurinn á skuldabréfamarkaði
  • Greining Íslandsbanka spáir því að gengi hlutabréfa haldi áfram að hækka
  • Peningastefnunefnd hefur áhyggjur að skuldabréfi í Seðlabankanum
  • Íslenska ríkið sýknað um bætur vegna Glitnis
  • Sveitarfélögin gætu farið að lækka skatta
  • Viðskiptablaðið fjallar um næsta seðlabankastjóra Bandaríkjanna
  • Útboð Seðlabankans skila 900 milljónum evra
  • Bakarameistarinn Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri Ikea, segir Ísland enn glíma við kreppu.
  • Viðskiptablaðið skoðar veiðimetin í laxveiðiánum
  • Landsliðsmenn fá hlut af milljarðinum komist Ísland á HM í Brasilíu
  • Fiðlusmiðurinn og verkfræðingurinn Margrét María Leifsdóttir prjónar vettlinga
  • Súpergrúppan Drangar stofnar einkahlutafélag um reksturinn
  • Nærmynd af fantasíusafnaranum og borgarfulltrúanum Hildi Sverrisdóttur
  • Huginn & Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um fyrirtækjarekstur bankanna
  • Óðinn skrifar um heilbrigðismálið kostnaðarveiki
  • Þá eru í blaðinu það helsta úr VB sjónvarpi, pistlar og margt, margt fleira