„Þetta er næsta skrefið í heilbrigðisgeiranum. En samkeppnin er mjög hörð enda sviðið heitt. Við þurfum á öllu okkar að halda til að ná árangri í þessum geira,“ segir Hannes Smárason, forstjóri fyrirtækisins NextCode.

Fyrirtækið er angi út frá Íslenskri erfðagreiningu. NextCode kaupir sjúkdómsgreiningar af Íslenskri erfðagreiningu og stefnir á að selja þær læknum og sjúkrahúsum. Varan byggist á raðgreiningarupplýsingum sem eiga að aðstoða við að segja til um það í hvaða áhættuflokki viðkomandi sjúklingur geti verið í. Í stuttu máli má segja að stefnan sé á það sem kallað er einstaklingsbundna heilbrigðisþjónustu þar sem fólk reynir að fá þá aðstoð og þau lyf sem það þarf en ekki heildarlausn sem virkar fyrir tiltekna hópa. Fyrirtækið er þegar komið með fjóra viðskiptavini - fjóra spítala í jafn mörgum heimsálfum.

Óvíst hvaða viðskiptamódel virkar

Hannes segir í samtali við VB.is vöru NextCode og keppinauta fyrirtækisins næsta skrefið í heilbrigðisgeiranum. Á sama tíma eru horfurnar ótryggar.

„Að sumu leyti er þetta eins og þegar Íslensk erfðagreining var stofnuð á sínum tíma. Þá var verið að byrja að nota erfðafræðina sem tól. Þá voru mörg fyrirtæki stofnuð á þeim tíma. Nú er komin ný kynslóð af þessum úrvinnslufyrirtækjum sem eru að hjálpa til við að nýta þessa tækni og koma henni í umferð inn í heilbrigðisgeirann, bæði í tengslum við sjúkdómsgreiningar, meðhöndlun sjúklinga, lyfjagreiningar og lyfjameðhöndlun. Það er á þessu sviði sem við ætlum að vera. Það er framtíðin í þessum geira. En það á eftir að koma í ljós hvaða viðskiptamódel gengur upp og framvegis,“ segir hann og bætir við að ólíkt viðskiptamódeli líftæknigeirans þurfi ekki að bíða eftir því að ná tilteknum árangri í rannsóknum heldur verði tekjurnar til við að veita þjónustu.

„Við teljum að þetta geti valdið byltingu enda erum við farin að sjá sviðið færast æ meir í þá átt sem NextCode vinnur á, þ.e. burt frá einstökum erfðaprófum til heilsteyptari greiningar.

Spurður hvort til standi að skrá NextCode á markað segir Hannes svo ekki vera.

„Við erum ekki komin á þann stað ennþá. Það er seinni tíma músík. Fyrst þurfum við að koma okkur áleiðis. En það kemur í ljós,“ segir Hannes Smárason.