Hannes Smárason var í dag sýknaður „að svo stöddu“ af 400 milljóna króna kröfu skilanefndar Glitnis í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Dómari komst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að félagið FI fjárfestingar, sem áður hét Primus og er í eigu Hannesar, skuli greiða Glitni 4,7 milljarða króna.

Þá var staðfestur 1. veðréttur í fasteign að Faxafeni 12, sem félagið Hlíðarsmári 6 ehf. heldur um, og 1. veðréttur í fasteignum sem félagið ELL 49 ehf. á. Þær eru landspildur úr jörðinni Nesjum í Grímsnes- og Grafningahrepp. FI fjárfestingum var einnig gert að greiða 1.500.000 krónur í málskostnað.

Í dómsorði stendur að Hannes sé sýknaður af greiðslu persónulegu ábyrgðarinnar „að svo stöddu“.

Sigurbjörn Þorbergsson, lögmaður skilanefndar Glitnis, segir dóminn staðfesta að Hannes þurfi að standa undir ábyrgðinni.

„Niðurstaðan þýðir einfaldlega það að skuldbindingin er staðfest.  Það er þó ekki hægt að innheimta hana fyrr en annaðhvort tveggja gerist: í fyrsta lagi að fasteignirnar sem voru veðsettar fyrir láninu verða seldar á uppboði, eða í öðru lagi að sýnt verði fram á það að aðrir kröfuhafar séu búnir að stefna honum. Dómurinn staðfestir veðrétt vegna fasteignanna. Það næsta sem gerist er að bankinn mun selja þær á uppboði og láta andvirðið ganga upp í skuldina.“

Átti að koma eignum í verð

Aðalmeðferð í skuldamáli Glitnis banka gegn Hannesi Smárasyni og þremur félögum í hans eigu fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 11. janúar síðastliðinn. Málið snýst um tvo lánasamninga sem félagið Prímus ehf., sem nú heitir FI fjárfestingar ehf., gerði við Glitni í lok árs 2007. Félagið var í eigu Hannesar og sjálfur var Hannes í sjálfskuldarábyrgð fyrir 400 milljónum króna af heildarláni. Alls hljóðuðu lánin tvo upp á 3,4 milljarða króna, hið stærra upp á 2,4 milljarða króna.

Lögmaður Hannesar taldi að Glitnir hafi ekki staðið við samkomulag sem gert var 29. júní 2008. Þá hafi verið samið um að aðilar vinni sameiginlega, markvisst og með sérfræðingum að því að koma eignum í verð og greiða með verðmæti þeirra skuld Hannesar við bankann. Eignirnar voru hollenska félagið Oddaflug BV og íslenska félagið Oddaflug ehf.

Upphaflegur lánasamningur við Prímus ehf. var gerður í desember 2007 og átti að greiða 2,4 milljarða lánsfjárhæðina fjórum mánuðum síðar. Samningurinn var hinsvegar lengdur tvisvar. Þá var gerður viðauki við samninginn hjá áhættunefnd Glitnis þrisvar sinnum. Lokagjalddagi sem var ákveðinn var 31. ágúst 2009.

Hannes sýknaður en sjálfskuldarábyrgð staðfest

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að stefndi hafi ekki sýnt fram á að lánasamningarnir hafi verið greiddir fyrir 31. ágúst 2009. Þá hafi ekki komið fram varnir er leysi Hannes undan sjálfskuldarábyrgð.

Í lánasamningnum kom fram að „Glitnis sé reiðubúið að veita Hannesi Smárasyni hæfilegt ráðrúm (að minnsta kosti tvö ár samkvæmt nánara samkomulagi) til að efna sjálfskuldarábyrgðarskuldbindingu sína komi til þess að Glitnir geri kröfur á hendur honum á grundvelli hennar“. Dómari telur þetta ákvæði ekki afdráttarlaust . Nánara samkomulag hafi ekki verið gert um þetta atriði og sérstakt ákvæði sé ekki að finna í samkomulaginu er lýtur að því að veita stefnda lengri frest til þess að efna skuldbindingu sína vegna sjálfskuldarábyrgðar.

„Verður því ekki litið svo á að ákvæðið feli í sér að stefnda, Hannesi, hafi verið veittur a.m.k. tveggja ára frestur, frá gjalddaga, til þess að efna skyldur sínar sem sjálfskuldarábyrgðarmaður,“ segir í dómnum.

Dómari fellst á þær kröfur stefnda að fullnustuaðgerðir geti ekki hafist fyrr en eftir gjalddaga lánanna. Stefnandi, Glitnir, ber hallann af því að ákvæði samningsins séu óljós. Er þá vísað til þess að eitt ákvæðanna segir að Glitnir muni hefja fullnustuaðgerðir á grundvelli fasteignatrygginga áður en bankinn gerir kröfur á hendur Hannesi. Það sé í andstöðu við ákvæði um að samkomulagið falli úr gildi 31. ágúst 2009.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um aðalmeðferð málsins í janúar og má lesa hér .