Kaup FL Group á hlut í móðurfélagi American Airlines, AMR, hafa ekki farið framhjá heimspressunni og hefur breska dagblaðið The Times tekið Hannes Smárason, forstjóra FL Group, til umfjöllunar þar sem hann er kallaður stórlax í viðskiptaheiminum (e. business big shot).

Í fréttinni segir að Hannes hafi afrekað mikið á ævi sinni og er stiklað á stóru á náms- og starfsferli hans.

Samstarfsmenn Hannesar segja að hann hafi innleitt "bandaríska stefnu" (e. American focus) inn í íslenskt viðskiptalíf, en það mun þýða að hann sýni framhleypni og seiglu í að tryggja sér það sem stefnt er að og eru kaupin í AMR talin til vitnis um það.

Í fréttinni segir að þar sem nú sé mikið um sameiningar og yfirtökur í flugiðnaði Bandaríkjanna sé víst að hlutur FL Group muni hækka í verði, hvort sem American Airlines muni taka þátt í samþjöppuninni eða ekki.

Einnig kemur fram að Hannes og Jón Ásgeir Jóhannesson séu góðvinir og þeir stundi gjarnan viðskipti saman.

Þá er sagt frá fjölskylduhögum Hannesar og áhuga hans á fluguveiðum og er einnig tekið sérstaklega fram að hann sé mikill aðdáandi Sykurmolanna.