Hannes H. Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor, mun í dag halda fyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélagsins undir fyrirsögninni  „Fátækt á Íslandi 1991-2004“.

Fyrirlesturinn er haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.

Í kynningu á fyrirlestrinum kemur fram að því hafi oft verið haldið fram opinberlega, ekki síst í aðdraganda þingkosninganna 2003 og 2007, að fátækt hefði aukist á Íslandi „þrátt fyrir aukna velmegun alls almennings,“ eins og það er orða í kynningunni.

Hannes skrifaði á vefsíðu sinni á vef Pressunnar í gær að hann myndi á fyrirlestrinum ræða fátæktarhugtakið, jafnt hið sígilda hugtak Adams Smiths (skort á lífsgæðum) sem hugtök þeirra Georgs W. F. Hegels (andstæðu við auðlegð) og Johns Rawls (hámörkun lágmarksins).

„Þá mun ég ræða gögn um, við hvers konar atvinnuskipulag fátækum vegni þrátt fyrir allt best, en síðan snúa mér að Íslandi,“ segir Hannes.

„Höfðu þeir rétt fyrir sér, sem sögðu skömmu fyrir kosningarnar 2003, að fátækt væri þá meiri hér en annars staðar á Norðurlöndum? Eða þeir, sem sögðu skömmu fyrir kosningarnar 2007, að ójöfnuður hefði stóraukist á Íslandi fram til 2004? Ég mun ræða þau gögn, sem nota má til að svara þessum spurningum, og rifja upp deilur um þær, ekki síst á milli mín og Stefáns Ólafssonar, prófessors í félagsfræði, en hann lætur nú mjög að sér kveða í bloggheimum. Í því sambandi mun ég greina ýmsar villur og brellur í talnameðferð.“