Enginn vafi er á því að Margaret Thatcher var einn merkasti stjórnmálamaður tuttugustu aldarinnar í heiminum öllum, að mati Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, stjórnmálafræðiprófessors.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

„Hún var einörð, hyggin og hagsýn. Ég hitti hana nokkrum sinnum og hún hafði mikil áhrif á mig. Hún var skörungur og mikill kraftur stafaði af henni, enda heillaði hún alla sem hittu hana. Hún var verðugur fulltrúi kvenþjóðarinnar þótt hún nýtti sér það aldrei að hún væri kona. Hún var hlynnt hinum frjálsa markaði enda hafði hún kynnt sér vel kenningar míns gamla kennara F.A. Hayek. Það er mjög minnisstætt þegar hún kastaði bókinni Frelsisskráin eftir Hayek á borðið fyrir framan embættismennina og sagði „þetta er það sem við trúum á!“

Hannes segir að þegar Thatcher tók við embætti hafi Bretland verið veiki maðurinn í Evrópu, en henni hafi tekist að snúa algerlega við skipinu hvað það varðar og breytt Bretlandi aftur í efnahagslegt stórveldi.

„Þá má heldur ekki gleyma því að þau Ronald Reagan unnu kalda stríðið með því að bjóða kommúnistaríkjunum byrginn,“ segir Hannes.