Hannes Smárason hefur ákveðið að standa upp úr forstjórastóli markaðsfyrirtækisins NextCode um stundarsakir. Þetta gerir hann vegna ákæru embættis sérstaks saksóknara á hendur honum í tengslum við söluna á norræna flugfélaginu Sterling þegar hann starfaði sem forstjóri FL Group.

NextCode er systurfyrirtæki Íslenskrar erfðagreiningar. Fyrir hálfum mánuði greindi VB.is frá því að Hannes hafi verið ráðinn forstjóri fyrirtækisins. Markmið NextCode er að markaðssetja sjúkdómsgreiningu byggða á rannsóknum ÍE til lækna og sjúkrahúsa í Bandaríkjunum. Hannes sagði í samtali við VB.is fyrir rúmri viku í samtali við VB.is vinnu NextCode geta valdið byltingu.

Hannes hefur sent frá sér yfirlýsingu í tengslum við málið og segist ekki vilja að málið varpi skugga á NextCode.

Yfirlýsingi Hannesar:

„Vegna ákæru sem sérstakur saksóknari birti mér í dag hef ég ákveðið að víkja til hliðar úr forstjórastóli Nextcode um stundarsakir. Ég geri þetta vegna þess að ég vil ekki að málefni forstjóra þessa nýja fyrirtækis sem ég tók þátt í að stofna varpi skugga á fyrirtækið. Þess utan vil ég ekki að sá tími sem ég kann að þurfa á að halda til þess að verja mig gegn þessari undurfurðulegu ákæru dragist frá þeim tíma sem notaður er í að hlúa að fyrirtækinu. Ég mun hins vegar halda áfram að einbeita mér að því að vinna að framgangi Nextcode á alþjóðlegum vettvangi.“