Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra yfirheyrði Hannes Smárason, fyrrum forstjóra og stjórnarformann FL Group, í janúar síðastliðnum vegna rannsóknar sinnar á kaupum og sölum á flugfélaginu Sterling á árunum 2005-2006, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Ragnhildur Geirsdóttir, sem var forstjóri FL Group á undan Hannesi, var einnig boðuð til skýrslutöku sem vitni.

Verið er að rannsaka hvort FL Group hafi í raun greitt þrjá af þeim fjórum milljörðum króna sem Fons greiddi fyrir Sterling í mars 2005, en FL Group var almenningshlutafélag á þeim tíma. Grunur leikur á um brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að rannsókn lögreglu á málinu sé nú komin á fullt á ný eftir að hafa legið í dvala mánuðum saman. Ein af ástæðum þess að hún fór aftur af stað er sú að einstaklingur sem tengdist málinu á sínum tíma gaf sig fram við efnahagslögregluna og lýsti málavöxtum fyrir henni. Sá er einnig tilbúinn til að vitna um það sem hann sá og upplifði.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.