Það sem átti að vera faðmlag reyndist kverkatak og Íslendingar voru komnir í gildru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem var handrukkari fyrir Breta. Þetta sagði Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor á fundi sem haldinn var í gær á vegum Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt. Á fundinum rifjaði Hannes Hólmsteinn upp tilboð Rússa um 4 milljarða evra lán á hagstæðum vaxtakjörum og var sendiherrann í sambandi við Davíð Oddsson vegna þessa. Síðan hafi sendiherrann haft samband við Tryggva Þór Herbertsson um að lánið stæði til boða og því væri ekkert annað í stöðunni en að kaupa vodka og halda upp á þetta.

Hins vegar snerist Rússum hugur nokkrum klukkustundum síðar og drógu tilboðið til baka. Hannes segir að á þeim tíma hafi ráðamenn í Rússlandi fengið veður af því að Íslendingar væru í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Með því misstu þeir áhugann því fyrir þeim var þetta pólitískt mál. Bar Hannes þetta mál þá saman við viðskipti Rússanna áður fyrr þegar Bretar lokuðu á Íslendinga og Rússar keyptu af Íslendingum fisk. Þá líkt og nú, þegar smáþjóð væri í erfiðleikum, verði hún að snúa sér að því sem ekki kallast sætasta stelpan á ballinu og vísaði í Rússa.

Á fundinum í gær var var fjallað um bankahrunið, leyniskjöl Wikileaks ásamt mörgu öðru. Ásamt Hannesi var Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðidósent með erindi og Eiríkur Bergmann var umsegjandi. Fyrirlesturinn má sjá hér í heild sinni.