Í framhaldi af tilkynningu stjórnar Alfesca [ A ] 27. maí sl. er nú hægt að upplýsa að Alfesca gerði í dag samkomulag við ELL162 ehf, sem er eignarhaldsfélag hans hátignar Sheikh Mohamed bin Khalifa Al-Thani, um að eignarhaldsfélagið muni skrá sig fyrir 850,000,000 nýjum hlutum af höfuðstól félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alfesca.

„Nýju bréfin verða gefin út á áskriftarverði sem er 6,45 krónur fyrir hvern hlut og eftir þessa aukningu verður þarna um að ræða 12,6% eignarhlut í félaginu. Áskriftin er háð skilyrðum, m.a. um að Alfesca birti útgáfulýsingu (prospectus). Gert er ráð fyrir að fjárfestingunni verði lokið innan 8 vikna,“ segir í tilkynningu Alfesca.

„Þessi fjárfesting kemur í kjölfar þess að aðilar hafa átt í nánum viðræðum og byggt upp samband undanfarin tvö ár. Stjórn Alfesca býður hans hátign hjartanlega velkominn í hluthafahópinn en framundan eru spennandi tímar við að þróa Alfesca frekar.“

Sheikh Mohamed bin Khalifa Al-Thani er bróðir emírsins af Katar, Sheikh Hamad Bin Khalifa Al Thani en hann er íslendingum ekki alls ókunnugur því Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson átti fund með Al Thani þriðjudaginn 20. maí síðastliðinn í Doha höfuðborg Katars.