Hans Liljendal Karlsson hefur tekið við stöðu forstöðumanns stjórnstöðvar hjá Veitum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Veitum.

Hans er 42 ára og hefur starfað sem sérfræðingur stjórnkerfa í stöðinni frá 2013. Hann vann áður sem tæknifræðingur hjá Raftákni 2007 til 2013 og þar áður starfaði hann sem verkefnastjóri í þróunardeild FLSmidt Automation í Danmörku. Hans er með B.Sc. gráðu í hugbúnaðartæknifræði frá Ingeniørhøjskolen í Kaupmannahöfn.

Veitur byggja upp og reka vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu á veitusvæði sínu sem nær yfir suðvestanvert landið. Stjórnstöð Veitna sér um vöktun og stýringu veitukerfa og bregst við ef truflanir eða bilanir koma upp.