Hans-Ole Jochumsen, forstjóri Nasdaq OMX Nordic móðurfélags kauphallanna á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen, segir að þrátt fyrir gjaldeyrishöft hér á landi sé hægt að byggja upp hlutabréfamarkaðinn. Í viðtali í Áramót, áramótariti Viðskiptablaðsins, segir hann það beinlínis nauðsynlegt að tíminn sé nýttur til uppbyggingar. Jochumsen er jafnframt stjórnarformaður íslensku NASDAQ OMX kauphallarinnar.

[Sp. blm.]: Það er ekki fyrir hendi áætlun um hvenær gjaldeyrishöftunum verður aflétt. Er hægt að byggja upp hlutabréfamarkað, á tímum alþjóðlegra viðskipta, þegar gjaldeyrishöft eru við lýði?

„Vonandi mun íslenskt atvinnulíf ekki búa lengi við gjaldeyrishöft. Þau eru afar skaðleg til langframa og mega því aðeins vera tímabundun ráðstöfun vegna neyðaraðstæðna. Verandi Dani sem býr í Svíþjóð og starfar víðsvegar í heiminum þá eru gjaldeyrishöft ekki það sem kemur upp í hugann þegar frjáls viðskipti eru til umræðu. Úr þeim aðstæðum er landið ekki komið ennþá. Það er rétt, að engin opinber áætlun liggur fyrir um hvernig höftunum verður aflétt eða nákvæmlega hvenær. Seðlabankastjórinn hefur þó talað um að stigin verði skref í átt að afnámi hafta smátt og smátt.

Það er erfitt að hugsa sér markaðsbúskap, á þessum tímum, öðruvísi en að ekki séu höft á fjármagnsflutningum. En þrátt fyrir þessar aðstæður hér á landi, tímabundið, þá mega þær ekki stöðva jákvæða þróun við uppbyggingu markaðarins. Það er hægt að treysta stoðir hlutabréfamarkaðarins með ýmsum hætti þrátt fyrir gjaldeyrishöftin og þau skref er verið að stíga núna. Það hefur tekið lengri tíma en vonast var til, strax eftir hrun viðskiptabankanna, að skrá ný félög.

Að mínu mati virðist þar vera helsta ástæðan vera sú að það er gríðarlega umfangsmikið verkefni að endurskipuleggja fjárhag fyrirtækja og það hefur haft áhrif á undirbúning þess að skrá fyrirtæki á markaðinn. Það verkefni að endurreisa hlutabréfamarkað, efla markaðsdrifið hagkerfi og koma á stöðugleika í gengismálum er langtímaverkefni. Það mun hins vegar ekkert gerast ef það eru aldrei stigin nein skref í þá átt að efla markaðinn. Þess vegna skiptir máli að það sé unnið ötullega að því að byggja stoðirnar undir markaðinn, til framtíðar litið. Það er það sem er verið að gera núna og sú vinna gengur vel. Þrátt fyrir gjaldeyrishöftin, þá er hægt að byggja upp hlutabréfamarkaðinn og það er beinlínis nauðsynlegt að tíminn sé nýttur til uppbyggingar.“