Stjórnarformaður íslensku NASDAQ OMX kauphallarinnar, Daninn Hans-Ole Jochumsen, segir grunnhugmyndina á bakvið hlutabréfamarkaði ekkert hafa breyst þrátt fyrir bankahrunið. Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hrundi nær alveg til grunna eftir bankahrunið og hefur ekki rétt úr kútnum,ólíkt flestum öðrum löndum.

Í viðtali við áramótablað Viðskiptablaðsins segir hann að hlutabréfamarkaðurinn geri gagn, ekki síst á litlum mörkuðum þar sem endurreisa þarf traust og koma fjármagni „í vinnu“. Jochumsen segist jafn sannfærður nú og áður um mikilvægi hlutabréfamarkaða, ekki síst á litlum mörkuðum. „Í fyrstu vill ég nefna það, að virkur markaður með hlutabréf og fjármagn í gegnum kauphallir er mikilvægur þáttur í því að skapa arðsemi og verðmæti í samfélögum. Endurreisn markaðarins, eftir hrun bankanna og krónunnar, er afar mikilvægur hluti þess að bæta umhverfi fyrirtækja. Vitaskuld skiptir máli að fyrstu þrjár til fimm nýjar skráningar á markað eftir áfallið heppnist vel.“

Aðspurður um hvort að það skorti ekki dýpt á hlutabréfamarkaðinum á Íslandi til þess að tryggja að verðmyndun á markaðinum sé skilvirk og eðlileg þá segir Jochumsen spurningar í þá veru vera bæði sanngjarnar og eðlilegar.

„Í því sambandi er mikilvægt að horfa til þess hvers vegna hlutabréfamarkaðir eru til um allan heim. Það er vegna þess að það er algjörlega óumdeilt að skráðir markaðir og kauphallir styðja við efnahagslíf landa og opna möguleika fyrir fjárfestingar sem annars væru ekki til staðar.Markaðurinn þarf að vera skilvirkur og þrátt fyrir smæð þá geta markaðir verið það. Ég tel að það sé mögulegt að endurreisa markaðinn á Íslandi og er sannfærður um að hann – einmitt í þessu árferði –getur gert mikið gagn. Dýpt markaðarins, þ.e. skilvirknin á markaðinum, ræðst af því hvernig hann verður endurreistur.“