Í kringum helmingur starfsmanna HP Farsímalagersins ehf., móðurfélags Hans Petersen og Farsimalagerinn.is, sem tekið var til gjaldþrotaskipta í byrjun þessa mánaðar, verður endurráðinn.

Að sögn framkvæmdastjóra nýs félags sem tekið hefur við rekstri verslana Hans Petersen, hyggst félagið snúa verslununum aftur í það horf sem þær voru í og leggja áherslu á myndavélar og þjónustu tengda þeim.

„Við breytum verslununum og leggjum áherslu á framköllun, netframköllun og tengdar lausnir og verðum ekkert í farsímum eða slíku,“ segir Jóhann Friðrik Ragnarsson, framkvæmdastjóri Verslana Hans Petersen ehf.

Verslunum hefur þegar verið fækkað en verslunum í Kringlu og Smáralind var lokað og eftir standa verslanir í Bankastræti og á Laugavegi.

Félagið Hans Petersen hf. hélt utan um hið 101 árs gamla vörumerki Hans Petersen en HP Farsímalagerinn ehf. annaðist rekstur verslana.

Fyrrnefnt félag var í eigu Fjárfestingarfélags Norðurlands en hið síðarnefnda var í rúmlega helmingseigu Hans Petersen hf. og Strax Holdings, sem áður rak Farsímalagerinn.