Ekki er enn komið í ljós hverjir munu skipa hluthafahóp Verslanir Hans Petersen ehf., að sögn Jóhanns Friðriks Ragnarssonar. Hann mun setjast í stjórn félagsins og annast daglegan rekstur til þess að byrja með.

Verslanir Hans Petersen ehf.  tók við rekstri Hans Petersen verslananna á Laugavegi 178 og Bankastræti 4 í kjölfar gjaldþrots HP Farsímalagerinn ehf., félags sem rak verslanir Hans Petersen, í dag. Verslunum Hans Petersen í Smáralind og Kringlunni var lokað í gær.

Öllum starfsmönnum voru greidd laun nú um mánaðarmótin. „Fyrrverandi eigendum  var mjög annt um að það yrði gert,“ segir Jóhann Friðrik. Hluta þeirra verður boðið starf hjá hinu nýja fyrirtæki. Hörður Þór Torfason, fyrrverandi framkvæmdastjóri HP Farsímalagersins ehf., segir að fyrirtækið hafi verið með um 25 starfsmenn.

Það liggur ekki enn fyrir hve stórt gjaldþrotið er, að sögn Jóhanns Friðriks.

Hann segist ekki geta tjáð sig um hverjir séu helstu lánadrottnar fyrirtækisins.

„Erfitt árferði; minnkandi smásala,“ segir Jóhann Friðrik, aðspurður um ástæðu gjaldþrotsins.

Hans Petersen var stofnað fyrir 101 ári síðan.