Sænski fræðimaðurinn, læknirinn og tölfræðingurinn Hans Rosling er nú fallinn frá 68 ára að aldri eftir árslöng veikindi. Rosling lést í faðmi fjölskyldu sinnar í Uppsala í Svíþjóð, en hann hefur stundum verið kallaður gagnatöframaður vegna þess hvernig honum tókst að koma tölfræðiupplýsingum til skila til áhorfanda sinna á skiljanlegan hátt.

Rosling er eflaust hvað þekktastur fyrir fyrirlestra sína, þar sem hann hefur nýtt allt frá hefðbundnum powerpoint glærum upp í lego kubba, pappakassa og jafnvel tebolla til að gera tölfræðilegar staðreyndir aðgengilegar fyrir áhorfendum.

Varð frægur með TED fyrirlestri árið 2006

Fyrsti fyrirlestur hans á vegum TED árið 2006 gerði hann heimsfrægan, en hann er prófessor í alþjóðlegum heilsuvísindum hjá Karólínsku stofnuninni í Svíþjóð.

Birtist verk hans meðal annars í heimildarmyndum frá BBC, þar á meðal í The Joy of Stats og Don´t Panic - the Truth about Population, en hann fjallaði töluvert um skiptingu auðs og fólksfjöldamál.

Hann kom einnig að stofnun Svíþjóðardeildar Lækna án landamæra og fór hann til Monróvíu, höfuðborgar Líberíu til að hálpa ríkisstjórninni til að takast á við það þegar Ebola faraldurinn herjaði á landið og nágrannaríkið Sierra Leone.

Fannst honum ekki hafa tekist nógu vel upp

Rosling dró þó sjálfur úr áhrifum sínum og sagði að honum hefði tekist að verða frægur en fannst honum ekki hafa tekist að auka þekkingu á þeim málum sem hann vildi vekja athygli á.

Rosling stofnaði ásamt syni sínum og tengdadóttur hugveituna Gapminder en það á að reyna að brúa bilið milli tölfræði og túlkunar á henni.