Þórdís Sigurðardóttir, heilsuráðgjafi og einn af eigendum Happs, segir heilbrigða lífshætti algjörlega nauðsynlega fyrir almenna vellíðan. Nauðsynlegt er að huga að öllum þáttum sem viðkoma heilbrigðum lífsháttum svo sem mataræði, hreyfingu, hvíld og andlegri vellíðan. Til að breiða út þennan boðskap hefur Happ þróast frá því að vera skemmtileg hugmynd í allsherjar lífsstílstengt heilsufyrirtæki.

Happ rekur nú þrjá veitingastaði, tvo í Reykjavík og einn í Lúxemborg, selur matarpakka bæði hér heima og í Lúxemborg, stendur fyrir heilsuhelgum á Hótel Hengli og heilsuvikum í Sviss. Sögu Happs má reka til ársins 2008 þegar stofnandi Happs, Lukka eða Unnur Guðrún Pálsdóttir, hóf að selja fullbúna matarpakka til áskrifenda. Þórdís vill koma því á framfæri að Lukka hafi verið fyrst til að bjóða upp á svona matarpakka hér á landi þrátt fyrir að margir hafi eignað sér heiðurinn af þessari hugmynd. Þórdís segir söluna á matarpökkunum í dag vera viðbót við veitingastaðina en það sé sífelld aukning í sölu þeirra. Fólk getur fengið matarpakka fyrir allan daginn, bæði hráfæði og venjulegt og sótt þá á veitingastaði Happs á Höfðatorgi eða í Austurstræti.

Happ er í eigu Þórdísar og Lukku og eiginmanna þeirra en yfirbyggingin er engin. Þórdís segir að til að byrja með hafi þau þurft að gera allt frá því að vaska upp, afgreiða mat og kaupa inn. „Það hefur verið mjög mikil vinna á bak við þennan rekstur en það er mjög skemmtilegt,“ segir hún á milli þess sem hún heilsar viðskiptavinum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið í liðnum tölublöð hér að ofan.