Ekki er lengur stefnt að því að setja á fót happdrættisstofu. Áfram er þó unnið að lagasetningu til þess að skýra regluverk um starfsemi happdrættis hér á landi. Hanna Birna Kristjansdóttir, innanríkisráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið fjölda athugasemda hafa borist frá hagsmunaaðilum og sé nú unnið að því að fara yfir þær. Ekki liggur fyrir hvort frumvarpið verður lagt fyrir Alþingi á yfirstandandi þingi.

Morgunblaðið segir að happdrætting hafi óskað eftir því að fá rýmri heimildir fyrir starfsemi sína. Bent er á að aðilar í happdrættisstarfsemi hér á landi hafi kvartað vegna erlendra veðmálasíðna sem velta árlega um tveimur milljörðum króna vegna viðskipta Íslendinga. Í frumvarpi Ögmundar Jónassonar, fyrrverandi innanríkisráðherra, sem nýja frumvarpið er byggt á, en dagaði uppi í þinginu stóð til að banna greiðslukortafyrirtækjum að hafa milligöngu í viðskiptum Íslendinga við erlend veðmálafyrirtæki.

Hanna Birna segir i samtali við Morgunblaðið:

„Það er gegnumgangandi þema í þessum athugasemdum að happdrættin vilja aukið frelsi í þessari starfsemi. Að menn hafi þá heimildir til að reka happdrætti með öðrum hætti, þá er um að ræða happdrætti á netinu, svo dæmi sé nefnt. En á móti hafa margir haft áhyggjur af aukinni spilafíkn. Því eru uppi hugmyndir um að efla samfélagsábyrgð þessara fyrirtækja sem myndu setja fjármagn í sameiginlegan sjóð til forvarna.“