Viðskiptavinir Roskilde Bank eru meira en 100.000 talsins. Ekki hefur átt sér stað áhlaup viðskiptavina sem vilja taka peningana sína út á bankann, en samkvæmt frétt Børsen glóa allar símalínur hans.

Fólk hringir og vill fullvissa sig um að það geti verið rólegt yfir þeim fjármunum sem það geymir í bankanum. Þessi óvissa endurspeglast á vefsíðu bankans þar sem skoða má spurningar viðskiptavina og svör, en þar er efsta spurningin „Har jeg tabt alle mine penge nu?“.

Bankinn svarar því til að svo sé sem betur fer ekki, ábyrgðin frá Nationalbanken tryggi að Roskilde Bank ráði við að halda eðlilegri starfsemi gangandi.

Í tilkynningu frá bankanum segir að auk þess sem heimsmarkaðsástand hafi valdið bankanum erfiðleikum hafi ástandið á dönskum húsnæðismarkaði leitt til erfiðleika hjá mörgum af stærri viðskiptavinum bankans, en bankinn hefur lagt áherslu á þann markað í starfsemi sinni.

Eins og fjallað hefur verið um hrundu bréf bankans í verði við opnun markaða í morgun. Bankinn gafst upp á að reyna að afla nýs hlutafjár eða fá aðstoð annars banka og úr varð að seðlabanki Danmerkur, Nationalbanken, veitti honum ábyrgðir.