Nú á dögunum greindi Icelandair frá því að félagið hefði selt Reitum fasteignafélagi húsnæði sitt að Nauthólsvegi við Reykjavíkurflugvöll fyrir 2,3 milljarða króna. Icelandair mun þó leigja húsnæðið af Reitum næstu þrjú árin, eða út árið 2023. Að því loknu mun félagið flytja höfuðstöðvar sínar á Flugvelli í Hafnarfirði, þar sem hluti af starfsemi félagsins fer fram í dag. Þar með yfirgefur félagið höfuðborgina eftir að hafa haft höfuðstöðvar sínar þar svo áratugum skiptir.

Icelandair er ekki eina stóra fyrirtækið sem hefur tekið ákvörðun um að flytja úr Reykjavík yfir í nágrannasveitarfélag. Árið 2016 gerði Íslandsbanki slíkt hið sama er bankinn flutti höfuðstöðvar sínar frá Kirkjusandi, eftir 20 ára veru þar, yfir í Norðurturninn í Kópavogi. Auk þess má nefna að nágrannar Icelandair á Reykjavíkurflugvelli, ríkisfyrirtækið Isavia, mun flytja höfuðstöðvar sínar í Dalshraun í Hafnarfirði á næstunni. Þess ber þó að geta að bæði í tilfelli bankans og Isavia fannst mygla í húsakynnum fyrirtækjanna og var það sögð helsta ástæða flutninganna.

Fasteignaskattur hæstur í Reykjavík

Samkvæmt samantekt Félags atvinnurekenda (FA) munu fjögur af tólf stærstu sveitarfélögum landsins lækka fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði á þessu ári. Byggir samantektin á framlögðum frumvörpum til fjárhagsáætlana. Reykjavíkurborg er eitt þeirra sveitarfélaga sem lækka skattinn en borgin lækkar skattinn úr löglegu hámarki, sem er 1,65% af fasteignamati, í 1,6%. Þrátt fyrir það er skatturinn enn hæstur í Reykjavík af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Til samanburðar má nefna að Kópavogsbær lækkar fasteignaskattinn úr 1,49% niður í 1,47%, í Hafnarfirði stendur skatturinn í stað í 1,4% og í Garðabæ stendur skatturinn sömuleiðis í stað og er 1,59%.

Þykir FA umrædd lækkun ganga of skammt og benda á að samkvæmt könnunum félagsins séu há fasteignagjöld Reykjavíkurborgar eitt þeirra mála sem helst brenni á félagsmönnum FA. Bendir FA á að öll önnur sveitarfélög á suðvesturhorni landsins hafi lækkað álagningarprósentuna undanfarin ár til að koma til móts við atvinnulífið vegna mikilla hækkana á fasteignamati. Því hafi samkeppnisstaða fyrirtækja í Reykjavík versnað í samanburði við fyrirtæki sem staðsett eru í öðrum sveitarfélögum á suðvesturhorninu.

Veikir samkeppnisstöðu borgarinnar

Að öllu ofangreindu má því velta vöngum yfir því hvort stórfyrirtæki, sem og lítil og meðalstór, séu að flýja höfuðborgina og færa sig um set yfir til nágrannasveitarfélaga sem bjóða lægri fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir FA hafa bent á það að samkeppnisstaða Reykjavíkurborgar hafi versnað verulega gagnvart nágrannasveitarfélögum undanfarin ár, þar sem þau hafi lækkað skattprósentuna á meðan borgin hafi haldið henni í lögleyfðu hámarki.

„Reykjavíkurborg er núna, í fyrsta skipti í mörg ár, að lækka fasteignagjöldin á atvinnuhúsnæði. Það bætir samkeppnisstöðu borgarinnar að einhverju leyti gagnvart nágrannasveitarfélögum, sem var orðin býsna slæm. Það breytir samt ekki því að borgin innheimtir áfram hæstu fasteignagjöldin á höfuðborgarsvæðinu."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .