Fyrr í dag bárust fréttir af því að Elon Musk, forstjóri Tesla, hafi keypt 9,2% hlut í Twitter . Haraldur Þorleifsson, stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno sem var selt til Twitter í byrjun síðasta árs, hefur tjáð sig um málið á Twitter og svo virðist sem hann sé ekki spenntur fyrir að fá Musk inn sem stærsta hluthafa tæknifyrirtækisins.

„Elon Musk hefur (um stundarsakir að minnsta kosti) aflað mér mikla peninga,“ tísti Haraldur fyrr í dag. „Og mér mislíkar hann enn þá.“

Haraldur, sem starfar enn fyrir Twitter, hefur áður skrifað um Musk, sem er ríkasti maður heims samkvæmt auðmannalista Forbes. Í byrjun síðast árs benti Haraldur á að auðæfi Musk hafi á þeim tíma verið jafnmikil og verg landsframleiðsla Írans, lands með 40 milljónir íbúa. „Þetta er ekki sjálfbært kerfi,“ tísti Haraldur.

Í október síðastliðnum skrifaði Haraldur aftur um Musk og sagði að auðæfi hans hafi aukist um 35 milljarða dala á einum degi, sem er meira en verg landsframleiðsla Íslands á einu ári. „Og einhvern veginn er enn til fólk sem heldur að kerfið virki eðlilega.“

Ekki hefur verið greint opinberlega frá því hvað Twitter greiddi fyrir Ueno en ráðgert er að söluverðið hafi hlaupið á milljörðum króna. Miðað við Twitter-færslu Haraldar í dag eru líkur á að hann hafi fengið hlutabréf í Twitter við söluna eða að söluverðið hafi að hluta verið tengt við hlutabréfaverð samfélagsmiðilsins.

Sjá einnig: Twitter opnar skrifstofu í Reykjavík

Skömmu eftir að Twitter keypti Ueno greindi Haraldur frá því að bandaríska stórfyrirtækið myndi opna skrifstofu í Reykjavík.