Í viðtali við Harald Benediktsson, formann Bændasamtakanna, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er Haraldur spurður um rekstur Hótel Sögu og Hótel Íslands, en bæði hótelin og fasteignirnar eru í eigu Bændasamtakanna.

Þórólfur Matthíasson, háskólaprófessor sem lengi hefur gagnrýnt fyrirkomulag landbúnaðarins hér á landi, fjallaði nýlega um slæma skuldastöðu Hótel Sögu og það að Bændasamtökin hefðu hafnað kauptilboði í hótelið haustið 2006.

„Við höfum svarað Þórólfi á öðrum vettvangi og gætt þess, ólíkt honum, að skrifa með málefnalegum hætti,“ segir Haraldur aðspurður um málið.

„Hann er skipaður í eftirlitsnefnd um skuldamál. Þar hefur hann ákveðið hlutverk. Það hefur komið fram að Hótel Saga er i ferli hvað varðar skuldamál og sú niðurstaða sem þar fæst mun þurfa að sæta eftirliti þessarar nefndar þegar hún verður tilbúin. Ég held að það sé ekkert óeðlilegt að við bendum á fyrri orð hans og veru hans í þessari nefnd. Hann verður þó að standa fyrir sínum orðum og því hvaða hug hann ber til landbúnaðarins.“

Haraldur víkur í framhaldinu að því að þegar ákveðið var, sumarið 2009, að sækja um aðild að ESB hafi legið fyrir að mikil umræða yrði um málið á búnaðarþingi sama ár. Meginþorri félagsmanna hafi síðan verið sammála því að samtökin ættu að beita sér hart gegn aðild að sambandinu.

„Við vissum frá þeim degi að við myndum skapa okkur mikla óvild með tilheyrandi hörku frá einstaka hópum,“ segir Haraldur.

„Við finnum það að við erum látin gjalda þess hvaða afstöðu við höfum í ESB málum. Það er stanslaust verið að naga utan í okkur af því að menn hafa ekki getað hrakið málefnalega það sem frá okkur hefur komið í þessu máli. Þá er þess í stað unnið markvisst að því að draga úr trúverðugleika okkar. Það er fylgifiskur þess að við beitum okkur hart gegn aðild.“

Í viðtali við Viðskiptablaðið fjallar Haraldur um aðildarviðræðurnar að ESB og störf íslenskra embættismanna, stöðu bænda almennt auk þess sem hann svarar spurningum um umdeilda tolla og ríkisstyrki, framtíð landbúnaðarins og þess utan hótelrekstur samtakanna sem hefur verið til umfjöllunar að undanförnu.